Aurbjörg

Stýrivextir

Stýrivextir

Ef þú hefur fylgst aðeins með fréttum síðustu ár hefur þú líklegast heyrt orðið stýrivextir oftar en þú myndir vilja. Þeir hækka, þeir lækka, standa í stað og á einhvern hátt virðist það hafa áhrif á veskið okkar. 

En hvað eru þessir stýrivextir? Og hvers vegna ræður Seðlabankinn svona miklu um líf okkar? 

Hvað eru stýrivextir?

Stýrivextir, eða meginvextir, eins og þeir eru oft kallaðir - eru vextirnir sem Seðlabanki Íslands notar til að hafa áhrif á verðbólgu, lánakjör og aðra efnahagslega þætti í landinu. 

Stýrivextir byggjast á sjö daga bundnum innlánum lánastofnana í Seðlabankanum og eru eins konar “grunnvextir” hagkerfisins. Það eru vextirnir sem Seðlabanki Íslands ákveður í viðskiptum sínum við lánastofnanir. 

Með því að breyta stýrivöxtum hefur Seðlabankinn áhrif á vexti á peningamarkaði, sem síðan hafa áhrif á aðra markaðsvexti - sem eru til dæmis vextir á lánum og vextir á sparnaðarreikningum hjá bönkunum. 

Það er á þennan hátt sem stýrivextir snerta okkur í daglegu lífi. 

En af hverju þarf seðlabankinn að hækka eða lækka stýrivexti?

Seðlabankinn notast við stýrivexti til að reyna að halda hagkerfinu í jafnvægi. 

Ef verðbólga er há, sem þýðir að það er að það er viðvarandi hækkun á almennu verðlagi, hækkar Seðlabankinn stýrivexti til þess að kæla hagkerfið og draga úr neyslu einstaklinga og fyrirtækja.

Ef verðbólga er of lág og hagkerfið er að kólna hækkar Seðlabankinn stýrivexti til að hvetja fólk og fyrirtæki til að eyða og fjárfesta meira, en það örvar hagkerfið. 

Gott að hafa í huga að verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5%. Ef verðbólga er mikið hærri en það er líklegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti og öfugt, ef verðbólga er lág er líklegt að Seðlabankinn lækki stýrivexti. 

Hvernig hafa stýrivextir áhrif á þig?

Oft þegar stýrivextir breytast, finnur maður afleiðingar þess mjög fljótlega, sérstaklega ef þú ert með húsnæðislán með breytilegum vöxtum.

Þegar stýrivextir hækka:

Verða lán með breytilegum vöxtum dýrari og mánaðarlegar greiðslur þeirra hækka

Almenn neysla verður dýrari

En - sparnaðurinn þinn getur skilað meiri ávöxtun þar sem vextir á sparireikningum hækka

Þegar stýrivextir lækka:

Verða lán með breytilegum vöxtum ódýrari og mánaðarlegar greiðslur þeirra lækka

Fleira fólk og fyrirtæki fara að taka lán, kaupa fasteign og fjárfesta

En - vextir á sparnaðarreikningum lækka og færð þú þá ekki jafn mikið fyrir sparnaðinn þinn

Dæmi

Segjum svo að þú sért með 25 milljón króna húsnæðislán með breytilegum vöxtum. Ef Seðlabanki Íslands hækkar stýrivexti um 1 prósentustig getur það þýtt fyrir þig að árlegar vaxtagreiðslur hækki um 250 þúsund krónur - Bara vegna þessa eina prósents sem Seðlabankinn hækkaði vexti um.

Stýrivextir síðustu árin

Á síðustu árum hefur Seðlabankinn þurft að hækka stýrivexti mikið til að berjast við háa verðbólgu, en hún hækkaði gríðarlega í kjölfar covid áranna. Í byrjun heimsfaraldursins var talað um að fasteignamarkaðurinn hafi botnfrosið og verðbólga lækkaði mikið á sama tíma. Þá voru stýrivextir lækkaðir til að örva hagkerfið á ný. 2023 var svo komið að fasteignamarkaðurinn var í miklum blóma en verðbólga var komin upp í ca 10%. Þá steig seðlabankinn á bremsuna og hækkaði stýrivexti. 

Hvernig kemur þetta allt við mig?

Við vitum af framangreindu að vaxtastig breytist á Íslandi. Fasteignalán eru ekki með föstum vöxtum út lánstíma, þau eru annað hvort með breytilega vexti sem fljóta ofan á stýrivöxtum eða með föstum vöxtum í 3 eða 5 ár. Því er mikilvægt að hafa í huga að spenna ekki bogann of hátt í fasteignaviðskiptum. Það er gott ráð að gera ráð fyrir sveiflum og hafa þá svigrúm til að greiða meira tímabundið eða endurfjármagna húsnæðislánin til skamms tíma. 

Aurbjörg finnur tækifæri í fjármálum heimilisins
Láttu Aurbjörgu standa vaktina og hjálpa þér að taka betri ákvarðanir í fjármálum.
Gerast áskrifandi
Aurbjörg
Markmið Aurbjargar er að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða þig við að taka upplýstari og betri ákvarðanir í fjármálum.
RannisTaekniþrounarsjod
© 2017-2025 • Aurbjörg ehf. • 430518-1430 • Lágmúla 9 • 108 Reykjavík