Persónuverndarstefna Aurbjargar

Almennt

Fjártæknifyrirtækið Two birds ehf., eigandi þjónustuvefs Aurbjargar, www.aurbjorg.is, (hér eftir „Aurbjörg“) hefur það að markmiði að tryggja ábyrga og örugga vinnslu allra persónuupplýsinga sem unnið er með hjá Aurbjörgu og skuldbindur sig til að vinna aðeins með persónuupplýsingar á þann hátt sem lýst er í persónuverndarstefnu þessari og samræmist ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679 (GDPR) (hér eftir sameiginlega „persónuverndarlöggjöf“).

Vinsamlega kynntu þér persónuverndarstefnu þessa vel og vandlega. Ef þú samþykkir ekki efni hennar getur þú ávallt hætt að nota síðu Aurbjargar.

Ábyrgðaraðili er Two birds ehf., kt. 430518-1430, Lágmúla 9, 108 Reykjavík, twobirds@twobirds.io.

Skilgreiningar og túlkun

Persónuupplýsingar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Sá telst persónugreinanlegur ef hægt er að tengja hann/hana/hán, beint eða óbeint, við upplýsingar svo sem með tilvísun í nafn, kennitölu, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem teljast til einkenna og aðgreina hann frá öðrum. Persónuupplýsingar skiptast í almennar og viðkvæmar persónuupplýsingar. Ópersónugreinanleg gögn falla utan persónuverndarlöggjafarinnar.

Hinn skráði er einstaklingur eða sá sem persónuupplýsingarnar varða hverju sinni (hér einnig „þú“ eða „notandi“).

Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort sem vinnsla er sjálfvirk eða ekki, s.s. söfnun, notkun og varðveisla þeirra. Vinnsla er hvers konar meðferð á persónuupplýsingum.

Ábyrgðaraðili er sá sem ber ábyrgð á því að sú vinnsla sem fer fram á hans/hennar/hán vegum samrýmist persónuverndarlöggjöf og hann/hún/hán þarf að geta sýnt fram á það. Hann/Hún/Hán er sá sem ákveður tilgang vinnslunnar og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga.

Vinnsluaðili er sá sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila eða f.h. ábyrgðaraðila á grundvelli vinnslusamnings og miðlar þeim áfram til notenda.

Samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga telst vera óþvinguð, sértæk, upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing hins skráða um að hann/hún/hán samþykki, með yfirlýsingu eða ótvíræðri staðfestingu, vinnslu persónuupplýsinga um sig.

Gildissvið

Persónuverndarstefna þessi gildir um alla starfsemi í tengslum við þjónustuvef Aurbjargar þar sem vinnsla persónuupplýsinga fer fram en tekur þó aðeins til einstaklinga, ekki lögaðila. Séu einstaklingar í forsvari fyrir viðskiptavini sem eru lögaðilar gilda ákvæði stefnunnar um þá einstaklinga eftir því sem við getur átt.

Persónuverndarstefna þessi gildir einungis fyrir notkun þína á þjónustuvefnum www.aurbjorg.is. Á síðunum kunna að vera tenglar á aðrar vefsíður sem persónuverndarstefna þessi nær ekki yfir. Vinsamlega kynntu þér persónuverndarstefnu þeirra vefsíðna áður en þú afhendir þeim persónuupplýsingar.

Réttindi hins skráða

Hinn skráði á rétt á því að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að tryggja réttindi hans/hennar/hán samkvæmt ákvæðum persónuverndarlöggjafar og er persónuverndarstefna þessi skrifuð með það að markmiði. Aurbjörg leggur áherslu á að tryggja eftirfarandi réttindi:

Upplýsingaréttur. Réttur til að fá upplýsingar um þau gögn sem verið er að vinna með um þig þannig að þú getir gætt annarra réttinda þinna samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni.

Aðgangsréttur. Réttur til að fá upplýsingar um það hvort verið sé að vinna með persónuupplýsingar um þig. Í því felst réttur til að fá staðfestingu á því, afrit af upplýsingunum sem er verið að vinna með og aðrar upplýsingar um vinnsluna, s.s. tilgang og afleiðingar slíkrar vinnslu fyrir þig.

Andmælaréttur. Réttur til að mótmæla því að persónuupplýsingar um þig séu notaðar í sérstökum tilgangi.

Flutningsréttur. Réttur til að flytja eigin gögn sem þú hefur sjálf/ur afhent ábyrgðaraðila, t.a.m. ef þú vilt endurnýta þau hjá annarri þjónustu eða ábyrgðaraðila.

Réttur til leiðréttingar og eyðingar. Réttur til að láta leiðrétta eða eyða persónuupplýsingum um þig sem eru óáreiðanlegar eða rangar.

Réttur til að gleymast. Í vissum tilfellum átt þú rétt á því að öllum persónuupplýsingum sem við höfum að geyma um þig sé eytt, ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í ljósi upphaflegs tilgangs fyrir vinnslu.

Söfnun persónuupplýsinga

Það hvaða persónuupplýsingum er safnað um þig fer eftir notkun þinni á vefsíðu Aurbjargar. Þegar þú skráir þig í áskriftarþjónustu Aurbjargar samþykkir þú vinnslu persónuupplýsinga um þig.

Upplýsingar sem þú afhendir Aurbjörgu.
Þegar þú innskráir þig, stofnar til áskriftar hjá Aurbjörgu eða á annan hátt notar vefsíðuna, safnar Aurbjörg grunnupplýsingum um þig eins og nafninu þínu, kennitölu, heimilisfangi, netfangi, auðkennisupplýsingum, greiðslukortaupplýsingum og öðrum upplýsingum sem þú velur að veita Aurbjörgu inni á aðgangi þínum. Einnig kunna það að vera upplýsingar um hvernig fjármál þín standa og upplýsingar um hegðun og notkun þegar þú tekur þátt í markaðsrannsókn eða þjónustukönnun sem og aðrar samskiptaupplýsingar.

Upplýsingar sem Aurbjörg fær frá þriðja aðila.
Aurbjörg kann að nota þær upplýsingar sem þú afhendir Aurbjörgu til að kalla eftir frekari upplýsingum frá þriðja aðila (samstarfsaðila/vinnsluaðila) í opinberar skrár, eins og upplýsingar um eignir, lán, tryggingar eða lánshæfi, svo unnt sé að afhenda þá vöru eða veita þá þjónustu sem þú óskar eftir. Slík upplýsingaöflun byggist ávallt á því að sérstök heimild sé til staðar til að afhenda Aurbjörgu upplýsingarnar. Aurbjörg mun biðja um samþykki þitt áður en kallað er eftir upplýsingunum, eftir því sem tilefni er til. Dæmi um slíka aðila eru Creditinfo, fjármálastofnanir og tryggingafélög.

Upplýsingar sem Aurbjörg safnar sjálfkrafa úr tækinu þínu.
Eins og flestar vefsíður þá kann vefsíða Aurbjargar að safna ákveðnum upplýsingum sem tengjast þér og tækinu sem þú notar við heimsókn á síðuna. Þannig afhendir þú Aurbjörgu ákveðnar upplýsingar með óbeinum hætti eins og IP-tölu, raðnúmer snjalltækis, stýrikerfi og tegund vafra. Þessar upplýsingar eru þó aldrei notaðar til þess að auðkenna þig.

Tæknin sem notuð er fyrir þessa sjálfkrafa gagnaöflun felst í notkun vefkaka (e. Cookies).

Vefkökur eru litlar textaskrár sem eru vistaðar í tölvu eða snjalltæki þínu þegar þú heimsækir vefsíðuna í fyrsta sinn. Vefkökur gera vefsíðunni kleift að safna upplýsingum um aðgerðir þínar á vefsíðunni þannig að næst þegar þú heimsækir vefsíðuna ber vefsíðan kennsl á tækið og aðgerðir þínar.

Sumar vefkökur eru nauðsynlegar til þess að vefsíðan virki eðlilega og virkjast þær sjálfkrafa þegar þú heimsækir vefsíðuna. Dæmi um nauðsynlegar vefkökur eru tölfræðikökur og virknikökur sem virkja eiginleika vefsvæðisins sem eru forsenda fyrir notkun svæðisins og byggjast þar með á lögmætum hagsmunum Aurbjargar. Þær eru oftast vefkökur frá fyrsta aðila (e. First-Party Cookies), þ.e. þær koma frá sama léni og vefsíðan sem þú heimsækir www.aurbjorg.is.

Vefkökur frá fyrsta aðila geta þó verið fleiri en þær sem nauðsynlegar eru. Þær eru notaðar í þeim tilgangi að auðvelda þér innskráningu á notendavef Aurbjargar og bæta upplifun og notkun þína á öllu því sem er í boði á síðunni. Þær eru engu að síður mikilvægar þó þær séu ekki forsenda fyrir notkun svæðisins en þær gera þér kleift að komast á milli síðna á auðveldari hátt og muna þær stillingar sem þú valdir þegar þú heimsóttir síðuna síðast.

Vefkökur frá þriðja aðila (e. Third-Party Cookies) koma frá öðrum lénum sem Aurbjörg kaupir þjónustu af, t.d. greiningar- og auglýsingakökur. Þriðji aðili getur þá einnig borið kennsl á tækið þitt þegar þú heimsækir vefsíðuna. Þær eru notaðar í þeim tilgangi að skilja enn betur hvernig vefsíðan er notuð og t.a.m. hversu áhrifaríkar markaðsherferðir okkar eru. Þær hjálpa Aurbjörgu við að bæta upplífun þína enn frekar og sníða markaðsefni og auglýsingar að ákveðnum markhópum.

Aurbjörg notar slíkar vefkökur á vefsvæði sínu með þjónustu Google Analytics. Þú getur ávallt farið í stillingar á vefkökum á vefsíðu Aurbjargar og valið og hafnað vefkökum sem eru ekki nauðsynlegar.

Fjarskiptastofa hefur eftirlit með nýtingu vefkaka og hvort heimild sé til staðar fyrir notkun þeirra samkvæmt lögum nr. 70/2022 um fjarskipti.

Aurbjörg safnar almennt ekki viðkvæmum persónuupplýsingum s.s. heilsufarsupplýsingum, upplýsingum um þjóðerni, trúarbrögð o.fl.

Framangreindum upplýsingum er aldrei deilt með þriðja aðila nema með skýru samþykki notanda.

Tilgangur og heimildir söfnunar

Aurbjörg safnar framangreindum upplýsingum í þeim tilgangi að:

Afhenda þér þá vöru og þjónustu sem þú óskar eftir og Aurbjörg býður upp á.

Hafa samband við þig með tilkynningum/skilaboðum til að upplýsa þig um nýjungar og þróun vefsíðunnar sem kann að vekja áhuga þinn, tilkynna þér um breytingar á skilmálum, tengja þig við samstarfsaðila ef þess er óskað og senda þér markaðspósta og kynningarefni. Þegar þér berst tölvupóstur í markaðslegum tilgangi frá Aurbjörgu getur þá ávallt kosið að afskrá þig af þeim lista með því að velja „afskrá mig af póstlista“ í tölvupóstinum.

Greina og bæta efni þjónustunnar sem er aðgengileg á vefsíðunni og til að meta þarfir notenda. Aurbjörg greinir hegðunarmynstur þitt út frá fótsporum þínum á vefsíðunni og tilgangurinn er að veita notendum betri innsýn í hegðun markaðarins í fasteignakaupum og lántöku svo dæmi séu nefnd. Að auki eru framkvæmdar greiningar í markaðslegum tilgangi og eftir atvikum seldar fyrirtækjum og/eða birtar opinberlega. Sé það gert eru einungis ópersónugreinanlegar upplýsingar notaðar, ekki þínar persónuupplýsingar.

Sérsníða þjónustuna að þínum þörfum og óskum með greiningu á þínu hegðunarmynstri og sýna þér samanburð á hegðunarmynstri annarra notenda (sem er byggt á ópersónugreinanlegri samantekt). Liður í sérsniðinni þjónustu kann að vera byggður á sjálfvirkri vinnslu persónuupplýsinga í hugbúnaði Aurbjargar sem vinnur með persónuupplýsingar um þig á sjálfvirkan hátt og tekur ákvörðun um þína hagi án þess að mannshönd eða -hugur komi að henni. Slíkt persónusnið er byggt á sjálfvirkri ákvörðunartöku.

Tryggja öryggi vefsíðunnar og vernd gegn svikum.

Í öðrum lögmætum og viðskiptalegum tilgangi.

Að meginstefnu til, þegar notandi hefur skráð sig í áskriftarþjónustu Aurbjargar, byggir vinnsla persónuupplýsinga um þig á samningssambandi milli þín og Aurbjargar um tiltekna þjónustu. Í ákveðnum tilvikum byggir vinnslan einnig á upplýstu samþykki ásamt því að í einhverjum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að vinna með persónuupplýsingar þínar á grundvelli lögmætra hagsmuna sem Aurbjörg gætir. Hinir lögmætu hagsmunir eru hér fólgnir í því að Aurbjörg geti veitt notendum vefsíðunnar betri þjónustu og sinnt samanburðar- og greiningarþjónustu sinni.

Öryggi og varðveisla persónuupplýsinga

Aurbjörg gætir þess í hvívetna að vernda persónuupplýsingar með viðeigandi tæknilegum og skipulagslegum ráðstöfunum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir óheimila notkun, afritun, afhendingu til þriðja aðila, sem og til að fyrirbyggja að upplýsingar glatist, séu ranglega skráðar eða að önnur misnotkun á upplýsingum eigi sér stað. Persónubundnar aðgangsstýringar, dulkóðun, notkun gerviauðkenna, álagsprófanir eru dæmi um slíka öryggisráðstöfun. Öll hýsing og flutningur persónuupplýsinga skal sérstaklega tryggður og vera í samræmi við kröfur persónuverndarlöggjafarinnar. Þá leggur Aurbjörg áherslu á að brugðist sé við öryggisbrotum í samræmi verklagsreglur og ákvæði persónuverndarlöggjafar þegar tilkynningar berast til persónuverndarfulltrúa félagsins.

Persónuupplýsingar eru aðeins varðveittar eins lengi og nauðsynlegt er til að Aurbjörg geti sinnt þeirri þjónustu sem er í boði og í samræmi við upphaflegan tilgang vinnslunnar. Meginreglan er að persónuupplýsingar þínar eru geymdar á meðan áskriftarþjónusta stendur eða lögmætir hagsmunir Aurbjargar krefjast þess. Ef sérlög kveða á um skyldu til að varðveita tiltekin gögn lengur, s.s. lög nr. 145/1994 um bókhald, ganga þau framar.

Breytingar á persónuverndarstefnunni

Persónuverndarstefnan kann að taka breytingum vegna breytinga á löggjöf, starfsemi félagsins eða öðrum ástæðum sem kunna að kalla á slíkt. Komi til breytinga verða þær aðgengilegar á vefsvæði Aurbjargar og er litið svo á að þú hafir samþykkt breytingarnar með áframhaldandi notkun á vefsíðu félagsins. Við mælum með að þú fylgist vel með á vefsíðunni og kynnir þér allar breytingar vel.

Tengiliður og réttarúrræði

Persónuverndarfulltrúi félagsins, Ásgerður Þ. Hannesdóttir lögfræðingur, er tengiliður við hinn skráða og sér um samskipti við persónuverndaryfirvöld. Persónuverndarfulltrúi sinnir því hlutverki að veita ráðgjöf í tengslum við persónuverndarlöggjöfina og sýna fram á fylgni við hana í starfsemi Aurbjargar og Two birds ehf. en tekur ekki ákvarðanir um vinnslu persónuupplýsinga.

Ef þú telur að brotið hafi verið á rétti þínum vinsamlega hafðu samband og við tökum erindi þitt til skoðunar. Fyrirspurnir, athugasemdir og ábendingar sem varða persónuupplýsingar og persónuvernd má senda á netfangið personuvernd@aurbjorg.is.

Komi upp ágreiningur um meðferð persónuupplýsinga er unnt að senda kvörtun til Persónuverndar á netfangið postur@personuvernd.is eða með því að senda bréfpóst til Persónuverndar, heimilisfang: Rauðarárstígur 10, 105 Reykjavík. Sjá nánar á vefsíðunni www.personuvernd.is.