
Þegar keypt er húsnæði er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki bara útborgunin sem krefst fjármagns. Ýmis aukagjöld fylgja kaupum, til dæmis gjöld til fasteignasala, stimpilgjöld, lántökugjald, kostnaður vegna greiðslumats og þinglýsingargjöld.
Þegar eignin er komin í þínar hendur bætist við reglulegur rekstrarkostnaður, til dæmis fasteignagjöld, tryggingar, hiti, rafmagn og fleira.
Förum aðeins yfir þetta!
Þetta er oft stór kostnaðarliður þegar verið er að bæði selja og kaupa fasteign. Ef aðeins er um kaup að ræða verður þessi kostnaður ekki jafn hár.
Við sölu á fasteign þarf að greiða fasteignasala þóknun fyrir starf sitt, sem er yfirleitt prósentutengd við söluverðið og er algengt viðmið 1,5–2%. Að auki bætist við virðisaukaskattur, sem er 24%. Auk sölulauna er gjarnan rukkað gagnaöflunargjald, sem er oft í kringum 50.000–60.000 kr., og getur einnig komið til kostnaður við ljósmyndun eignarinnar vegna auglýsingar.
Við kaup á fasteign þarf yfirleitt að greiða eins konar umsýsluþóknun til fasteignasala, sem er oft í kringum 50.000–70.000 kr. Þessi þóknun felur í sér aðstoð fasteignasala við yfirferð skjala og umsýslu vegna kaupanna.
Annar stór kostnaðarliður þegar kemur að fasteignakaupum eru stimpilgjöld sem sýslumaður innheimtir. Stimpilgjald er greitt af skjölum sem varða eignayfirfærslu, til dæmis kaupsamningum. Stimpilgjald nemur 0,8% af fasteignamati eignarinnar.
Fyrstu kaupendur njóta 50% afsláttar af stimpilgjaldi.
Ef tekið er lán fyrir fasteign þarf að greiða lántökugjald. Það er gjald sem lánastofnun innheimtir þegar tekið er nýtt lán. Um er að ræða fasta upphæð sem getur verið mismunandi eftir lánastofnunum, en hún er oft á bilinu 50.000–70.000 kr.
Hjá sumum lánastofnunum njóta fyrstu kaupendur 100% afsláttar af lántökugjaldinu.
Áður en lánið er tekið þarf að fara í gegnum greiðslumat hjá lánastofnun, greiða þarf sérstaklega fyrir það. Greiðslumat er mat frá lánastofnun sem segir til um hvort þú eigir möguleika á að fá lán hjá viðkomandi lánastofnun eða ekki. Lánastofnanir skoða meðal annars tekjur, útgjöld og aðra þætti áður en lán eru veitt. Greiðslumat kostar um 7.000 kr. fyrir einstaklinga og um 17.000 kr. fyrir sambúðarfólk.
Við þetta bætist svo þinglýsingargjald. Sýslumaður innheimtir gjaldið, en þinglýsing er opinber skráning eignaréttinda. Þinglýsing kostar 2.700 kr. fyrir hvert skjal. Við fasteignakaup þarf oft að þinglýsa tveimur til þremur skjölum, yfirleitt kaupsamningi og lánaskjölum.
Þú ert að selja fasteign sem kostar 70.000.000 kr.
Sölulaun til fasteignasala nema þá 1.302.000–1.736.000 kr., sem er 1,5–2% af fasteignaverði í sölulaun + 24% virðisaukaskattur. Auk þess þarf að greiða 50.000–60.000 kr. í gagnaöflunargjald.
Þetta gerir því um 1.352.000–1.796.000 kr. í heildarkostnað við sölu fasteignarinnar.
Einnig ertu að fara að kaupa þér nýja fasteign sem kostar 90.000.000 kr., með fasteignamat upp á 85.000.000 kr. Fyrir þessi kaup þarf að greiða umsýslugjald til fasteignasala, stimpilgjald og þinglýsingargjald.
Umsýslugjald: um 50.000–70.000 kr.
Stimpilgjald: 0,8% af fasteignamati, sem gerir um 680.000 kr.
Þinglýsingargjald: 2.700 kr. fyrir hvert skjal. Oft þarf að þinglýsa um þremur skjölum, sem gerir samtals 8.100 kr.
Samanlagt gera þessi gjöld um 748.100 kr. við kaup á nýju fasteigninni.
Heildarkostnaðurinn, bæði við sölu og kaup, verður því um 2.100.100–2.476.000 kr.
Ekki má gleyma lántökugjaldinu, sem er 50.000–70.000 kr., en sá kostnaður bætist oftast við höfuðstól lánsins - en kostnaður engu að síður!
Þegar eignin er komin í þínar hendur taka við gjöld á borð við fasteignagjöld, tryggingar, hita, rafmagn og stundum jafnvel húsfélagsgjöld.
Fasteignagjöld eru gjöld sem sveitarfélög leggja á allar fasteignir og ber eigandanum að greiða þau. Það er breytilegt eftir sveitarfélögum hvaða liðir falla undir fasteignagjöld, en oftast eru það:
fasteignaskattar
lóðarleiga
vatns- og fráveitugjöld
sorp- og urðunargjöld
Í Reykjavíkurborg eru vatns- og fráveitugjöld innheimt sérstaklega, auk fasteignagjalda.
Fasteignagjöld eru mishá eftir sveitarfélögum og fjöldi gjalddaga er einnig breytilegur, yfirleitt um
8–11 sinnum á ári.
Auðvelt er að komast að því hvernig sveitarfélög reikna fasteignagjöld, en þessar upplýsingar eru aðgengilegar öllum á heimasíðum þeirra.
Eigendum fasteigna ber lagaleg skylda til að brunatryggja húsnæði sitt. Brunatrygging bætir tjón á fasteign sem verður fyrir eldsvoða.
Kostnaður við brunatryggingu fer eftir brunabótamati fasteignarinnar, sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) metur. Notkun og staðsetning eignarinnar hefur einnig áhrif á verðið.
Hægt er að óska eftir endurmati á brunabótamati hjá HMS, sérstaklega ef langt er liðið frá síðasta mati eða ef gerðar hafa verið endurbætur á eigninni, t.d. viðbygging, sólpallur eða aðrar sambærilegar framkvæmdir.
Einnig er oft í boði að kaupa viðbótarbrunatryggingu, ef eigandi vill tryggja fasteignina fyrir hærri fjárhæð en brunabótamatið segir til um. Sú trygging er þó ekki lögbundin.
Aðrar lögbundnar tryggingar fylgja ekki fasteignum. Hins vegar eru til ýmsar aðrar tryggingar sem tengjast eignarhaldi, eins og húseigendatryggingar og heimilistryggingar, en það er alfarið undir nýjum eiganda komið.
Rafmagnskostnaður heimilis skiptist í tvo reikninga:
1. Dreifiveita
Dreifiveitan sér um flutning og dreifingu rafmagns, ásamt búnaði sem fylgir afhendingu — til dæmis rafmagnsmælum. Þessi kostnaður er fastur og fer eftir staðsetningu fasteignarinnar, og því er ekki hægt að velja sér dreifiveitu.
Þú greiðir þennan reikning til HS Veitna, Veitna, Orkubús Vestfjarða, Norðurorku eða Rariks.
2. Raforkusali
Raforkusalinn selur rafmagnið sjálft. Það eru níu raforkusalar á Íslandi, og hægt er að velja hjá hverjum rafmagnið er keypt — verðin eru mismunandi eftir söluaðilum. Vefsíðan Aurbjörg ber saman verð þeirra og býður upp á gagnlegan samanburð.
Reikningur frá raforkusala getur komið frá Orkusölunni, Straumlind, Atlantsorku, Orkubúi Vestfjarða, Orku heimilanna, N1 Rafmagni, Orku náttúrunnar, Fallorku eða HS Orku.
Mánaðarlega þarf einnig að greiða fyrir notkun á heitu vatni. Þennan kostnað innheimta veitufyrirtækin, þau sömu og sjá um dreifiveitu á rafmagni: HS Veitur, Veitur, Orkubú Vestfjarða, Norðurorka eða Rarik.
Reikningur fyrir hitaveitu skiptist í raun í tvennt:
1. Fast gjald
Fast gjald fer eftir stærð heitavatnsmælisins í húsnæðinu. Þetta gjald er dreift niður á greiðslutímabil.
2. Breytilegt gjald
Breytilegt gjald fer eftir notkun á heitu vatni, bæði til húshitunar og annarrar notkunar, eins og fyrir sturtur, bað, uppvask og fleira. Greitt er fyrir hverja þúsund lítra af vatni sem notaðir eru.
Íslensk heimili nota árlega um 4–5 tonn af heitu vatni á hvern fermetra. Stærsti hlutinn, um 90%, fer í að halda húsunum heitum. Afgangurinn nýtist í daglegt líf, til að fara í sturtu, bað, þrífa, vaska upp og allt annað sem fylgir heimilishaldinu og heitavatnsnotkun.
Reikning fyrir hitaveitukostnaði færðu frá HS Veitum, Veitum, Orkubúi Vestfjarða, Norðurorku eða Rarik, eftir því hvar þú býrð.
Verðskrá fyrir hitaveitu má finna á heimasíðum þessara fyrirtækja.
Íbúar fjölbýlishúsa greiða yfirleitt húsfélagsgjöld til viðkomandi húsfélags. Upphæð gjaldanna getur verið mjög breytileg eftir húsfélögum og mismunandi hvað er innifalið. Oft er verið að greiða fyrir einhverjar tryggingar, hita, rafmagn, stjórnunarkostnað húsfélagsins og varasjóð fyrir framkvæmdir.
Oft dreifist gjaldið eftir stærð eignarhluta hvers íbúa, þannig að þeir sem eiga stærri íbúðir greiða hærri gjöld en þeir sem eiga minni íbúðir.
Gott er að kynna sér nákvæmlega hvað felst í húsfélagsgjöldunum, þar sem það getur haft áhrif á hvaða þjónustu eða tryggingar þú þarft að greiða sérstaklega fyrir sjálfur. Sérstaklega er mikilvægt að vita þetta áður en þú sækir um tryggingar fyrir þína eigin eign, svo þú sért ekki að tvítelja tryggingavernd eða greiða fyrir eitthvað sem þegar er innifalið í gjöldunum.
Ekki má gleyma þeim kostnaði sem fylgir viðhaldi fasteignar, því hann getur verið umtalsverður. Ýmis óhöpp og viðgerðarverkefni geta komið upp hvenær sem er, og því skiptir máli að vera undirbúinn.
Það er því mikilvægt að hafa til ráðstöfunar einhvers konar varasjóð fyrir viðhald fasteignarinnar.
Þó að viðhaldskostnaður sé ekki fastur mánaðarlegur liður, er gott að gera ráð fyrir honum í fjármálaáætluninni, þannig ertu betur undirbúinn þegar óvænt útgjöld gera vart við sig.
Auk alls þess skyldukostnaðar sem fylgir því að eiga og reka fasteign getur fylgt ýmiss valkvæður kostnaður sem tengist því að eiga og búa í henni. Til dæmis internetkostnaður, öryggiskerfi og fleira sem gott er að hafa í huga.