Í húsnæðislána samanburðinum er hægt að bera saman vexti, kjör og aðrar upplýsingar frá helstu bönkum og lífeyrissjóðum landsins. Einnig er hægt að reikna út greiðslubyrði allra lána frá öllum lánveitendum og þeim raðað í röð eftir heildargreiðslu láns og er samanburðurinn óháður. Þegar ákveðið lán er skoðað frekar þá sést ítarlegri upplýsingar um það og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að taka lán hjá viðkomandi lánastofnun.
Ef þú ert þegar með lán þá viltu skoða endurfjármögnunar reiknivélina fyrir húsnæðislán. Þar inni hefur þú tækifæri að stimpla inn núverandi lán og forsendur fyrir nýju láni og Aurbjörg mun finna fyrir þig möguleg ný lán til þess að endurfjármagna. Við hvert endurfjármögnunar lán sérðu hversu mikið þú sparar við að endurfjármagna.
Áður en tekið er lán þarf að standast greiðslumat hjá viðkomandi lánastofnun, sem segir til um hversu dýra eign þú getur keypt eða hversu mikið þú getur greitt af láninu á hverjum mánuði.
Við umsókn á láni þarf lánveitandi að framkvæma svokallað lánshæfismat til þess að kanna hversu áræðanlegt er fyrir lánveitanda að lána þér.
Hægt er að taka lán með annað hvort jöfnum greiðslum (annuitet) eða jöfnum afborgunum. En hver er munurinn?
Þegar lán er með jöfnum greiðslum að þá er greiðslan af láninu alltaf sama upphæðin í hverjum mánuði, ef ekki er gert ráð fyrir verðbólgu. Í fyrstu vega vextirnir meira heldur en afborgun af höfuðstól í hverri greiðslu, en þegar líða tekur á lánstímann að þá snýst hlutfallið við, það er, þá fer hver greiðsla að mestu að borga af höfuðstólnum og minni upphæð fer í vexti.
Þegar lán er með jöfnum afborgunum að þá er greitt jafnt af höfuðstólnum í hverjum mánuði en vextir lækka eftir því sem höfuðstóllinn lækkar. Þar með er greiðslubyrðin hærri í byrjun þar sem vextirnir eru hæstir þá.
Á eftirfarandi gröfum má sjá dæmu um þetta. Lán er tekið að upphæð 20 milljón kr. í 40 ár með 5,00% föstum vöxtum (ekki er gert ráð fyrir verðbólgu).
Hér er greiðslan alltaf sú sama, um 96 þús. kr. Fyrst vega vextirnir meira, en síðan snýst hlutfallið við.
Fyrsta greiðslan er um 125 þús. kr. en fer síðan lækkandi þar sem höfuðstóllinn lækkar og því er síðasta greiðslan um 42. þús kr.
Greiðslubyrði láns með jöfnum afborgunum er hærri til að byrja með en við jafnar greiðslur og lækkar síðan þegar líður á lánstímann.
Grafið sýnir lækkun höfuðstóls með tíma. Höfuðstóllinn greiðist hraðar niður hjá lánum með jöfnum afborgunum.
Hægt er að velja á milli þess að taka verðtryggð lán eða óverðtryggð lán. Verðtryggð lán hækka með breytingu á vísitölu neysluverðs, en verðbólga hækkar höfuðstól lánsins. Þar með eru afborganir af verðtryggðum lánum lægri í byrjun en fara síðan hækkandi.
Greiðslubyrði óverðtryggðra lána er hærri í upphafi en lækkar síðan með tímanum. Verðbólga getur haft áhrif á óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum, en vextir óverðtryggðra lána byggjast á verðbólgu. Vextir óverðtryggðra lána eru almennt hærri en hjá verðtryggðum lánum. Helstu kostir óverðtryggðra lána samanborið við verðtryggð lán, er að það er hraðari eignarmyndun og engar verðbætur. Helstu kostir verðtryggðra lána er að þar er lægri og jafnari greiðslubyrði.