Í nýlegri umfjöllun Kveiks um skyndilán var fjallað um hve mikinn kostnað þessi lán bera.
Það er rétt að stundum er fljótlegra og þægilegra að taka skyndilán en yfirdráttarlán. Slíkt er hægt að gera gegnum öpp, vefsíður og í afgreiðslukössum sumra verslanna. Í sumum tilfella eru skyndilán nefnilega með lægri vexti en yfirdráttur en það segir ekki alla söguna ...
Skyndilán bera oft hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) en yfirdráttarlán.
Gjaldtaka kringum skyndilán er lúmsk því kostnaðurinn kemur ekki allur fram í gegnum vextina sem lánið ber. Í sumum tilfellum er vextir lægri en á yfirdrætti en lántökukostnaðurinn er nokkuð hár og á sama tíma er ekki hægt að taka nema lága upphæð til láns í hvert skipti. Við það taka sumir á það ráð að taka lánið nokkrum sinnum til að ná tiltekinni lágmarksupphæð. Með lántökugjöldum, tilkynninga- og greiðslugjöldum og hugsanlega öðrum gjöldum getur kostnaður við lántöku skyndiláns því orðið mun hærri í prósentum talið á ársgrundvelli en ef tekið er yfirdráttarlán. ÁHK lýsir þessum kostnaði.
Berum aðeins saman yfirdráttarlán og skyndilán: (tölur áætlaðar)
Yfirdráttarlán í banka vexti upp á 15%-17% (gróflega og án ábyrgðar) og lántökukostnaður eða breytingagjald á yfirdrætti er kannski í kringum 1.000,- kr. Yfirdráttur getur síðan verið nokkuð hár en það fer eftir lánshæfismati viðskiptavinar. Algengar tölur geta verið frá 50.000,- kr og alveg norður fyrir milljón. Yfirdráttur getur verið settur upp til eins, þriggja, sex eða tólf mánaða en hægt er að semja um lengri tíma við banka. ÁHK slíks láns er þá kannski um 17%.
Skyndilán getur verið með 12% vöxtum (gróflega og án ábyrgðar), lægri hámarksupphæð og lántökugjaldi við hvert skipti. Skyndilán þarf að greiða niður innan viss tímaramma og greiðslu-, og tilkynningargjald leggjast á hverja greiðslu. Samkvæmt lögum um neytendalán má ÁHK ekki vera hærra en 35% skuldar á ársgrundvelli að viðbættum stýrivöxtum. Þegar þetta er skrifað eru stýrivextir í Íslandi 9,25% og því má ÁHK fara upp í 44,25%. Nokkur skyndilánafyrirtæki nýta sér þessa heimild í neytendalögum til fullnustu og fara upp í þak ÁHK við útreikning endurgreiðslu skyndilána.
Miðað við það sem á undan hefur farið, má sjá að ef einstaklingur vill kaupa hlut á 100.000,- með skyndilánatöku þar sem ÁHK er 44,25% og greiða lánið til baka á einu ári, þá kostar hluturinn í heildina:
Skyndilán
100.000,- kr
+
44.250,- kr í ÁHK (lántökukostnaður, greiðslu og tilkynningargjöld, ýmis gjöld)
= 144.250,- kr
Yfirdráttur
100.000,- kr
+
16.000,- kr í yfirdráttarvexti
+
1,000,- kr Lántökukostnaður
= 117.000,- kr
Úff ... þarna munar 27.250,- kr á heildargreiðslunni.
Spurning hvort okkur vantaði þennan hlut svo sárlega að við vildum taka lán fyrir honum.