Skilmálar Aurbjargar – einföld útgáfa

Almennt

Skilmálarnir okkar fjalla um þjónustu Aurbjargar og hvaða reglur gilda um hana. Það er mikilvægt fyrir okkur að hafa skilmála sem þú lest yfir og samþykkir áður en þú ferð í áskrift til þess að halda utan um samningssambandið okkar á meðan áskrift stendur og til að báðir aðilar séu meðvitaðir um hvað þeim ber að gera og eiga rétt á.

Aurbjörg og áskriftarþjónustan

Áskriftarþjónusta Aurbjargar veitir þér lokaðan og persónubundinn aðgang að stjórnborði með fjárhagsupplýsingunum þínum, reiknivélum og samanburði á þjónustum fyrir fjármál heimilisins. Áskriftinni er ætlað að veita þér góða sýn yfir fjármálin, stuðla að auknu fjármálalæsi og betri ákvarðanatöku í fjármálum.

Þegar þú skráir þig í áskrift þá borgar þú fyrsta mánaðargjaldið með kortinu þínu og svo framlengist áskriftin sjálfkrafa í mánuð í senn nema ef þú segir upp áskriftinni. Ef þú hefur einhverjar spurningar þá getur þú spurt okkur með því að senda tölvupóst á aurbjorg@aurbjorg.is.

Aðgangur og innskráning

Þegar þú skráir þig í áskrift þá þarft þú að hafa rafræn skilríki svo þú getir skráð þig inn á síðuna með öruggum hætti og til þess að vitum að þetta sé raunverulega þú sem ert að skrá þig inn. Svo getur þú valið þér PIN númer sem auðveldar innskráninguna ef þú ferð oft inn á síðuna.

Þú þarft að passa vel upp á skilríkin og PIN númerið þitt svo enginn annar komist inn á síðuna þína og sjái persónulegu upplýsingarnar þínar. Þú mátt heldur ekki leyfa öðrum að nota aðganginn þinn, hann er bara fyrir þig.

Tilkynningar og skilaboð

Ef eitthvað breytist í þjónustunni eða við erum með góða hugmynd fyrir þig til að bæta fjármálin þín þá færð þú tilkynningu eða skilaboð frá okkur. Yfirleitt sendum við svoleiðis tilkynningu eða skilaboð á stjórnborðið þitt og í tölvupósti en þú gætir fengið þær líka í símann þinn.

Öryggi og persónuvernd

Okkur er umhugað um öryggi þjónustunnar og persónuupplýsinganna þinna og því er það í forgangi hjá okkur að hanna vefþjónustu sem uppfyllir ströngustu öryggiskröfur og passar upp á að vinnsla persónuupplýsinga þinna sé í samræmi við lög. Við höfum ítrekað það í persónuverndarstefnu Aurbjargar sem þú getur lesið hér: persónuverndarstefna Aurbjargar.

Rafræn gagnaöflun og miðlun

Hluti af þjónustu Aurbjargar virkar þannig að við köllum eftir gögnum um þig til annarra aðila, eins og t.d. Þjóðskrá um lögheimili þitt eða banka um stöðu og færslur á bankareikningunum þínum. Til þess að hægt sé að gera það þurfum við samt fyrst að fá samþykki þitt fyrir því og þess vegna látum við þig vita af því hér og stundum spyrjum við þig að því sérstaklega í þjónustunni hvort það sé í lagi áður en það er gert.

Vefkökur

Flestir eru farnir að þekkja svokallaðar vefkökur sem eru mikið notaðar á vefsíðum á netinu. Þessar vefkökur virka þannig að þegar þú ferð inn á ákveðna vefsíðu þá geymir tölvan eða snjalltækið þitt upplýsingar um hvað þú ert að gera þar. Það er gert í þeim tilgangi að búa til þjónustu sem er sniðin að þínum þörfum og til að nota í allskonar greiningarvinnu. Ef þú vilt ekki að við gerum það fyrir þig þá hefur þú val og getur afþakkað þær, fyrir utan ákveðna tegund af vefkökum sem eru nauðsynlegar svo vefsíðan virki almennilega.

Hlutleysi og takmörkun ábyrgðar

Aurbjörg vill bjóða þér upp á faglega og óháða þjónustu. Við gerum allt í okkar valdi til að sýna þér allar þjónustur sem eru í boði og að hafa upplýsingarnar réttar. Við getum hins vegar ekki tekið ábyrgð á því að upplýsingarnar sem við fáum annars staðar frá séu alltaf réttar og að greiningar fram í tímann standist alltaf skoðun. Við getum heldur ekki borið ábyrgð á tjóni sem verður af því að einhverjar ytri orsakir eigi sér stað sem við höfum enga stjórn á. Við gætum þurft að stöðva aðganginn þinn að þjónustunni tímabundið í þeim tilgangi að styrkja öryggisvarnir eða uppfæra þjónustuna en þá munum við láta þig vita.

Hugverkaréttindi

Fyrirtækið Two birds ehf. á vefþjónustuna Aurbjörgu og allt sem tengist henni. Þú mátt því ekki nota þjónustuna til annars en til persónulegra nota og í samræmi við skilmála Aurbjargar.

Uppsögn, lokun aðgangs og gildistími

Það er mjög einfalt að segja upp áskriftinni þinni og ef þú gerir það þá lokast aðgangurinn þinn þegar tímabilið sem þú varst búinn að borga fyrir lýkur. Þú ferð bara inn í stillingar og velur að segja upp áskrift. En á meðan þú ert í áskrift þá gilda ákveðnar reglur um þjónustuna sem koma fram í skilmálunum sem við biðjum þig um að samþykkja.

Skilmálabreytingar

Ef Aurbjörg breytir þjónustunni sinni eða t.d. verðinu á áskriftinni þá látum við þig vita og biðjum þig kannski um að samþykkja uppfærða skilmála.

Lög og reglur

Skilmálarnir okkar eiga alltaf að vera í samræmi við gildandi lög og reglur og við reynum að tryggja réttindi þín í öllu ferlinu. Ef þú hefur einhverjar athugasemdir þá getur þú alltaf haft samband við okkur.