Aurbjörg

Allt sem þú þarft að vita um lánshæfismat

Allt sem þú þarft að vita um lánshæfismat

Mikilvægt er að vita hvað lánshæfismat er, áhrifin sem það hefur á þig og þekkja sitt lánshæfismatið til að vita hvar þú stendur. Hér verður fjallað um allt sem þú þarft að vita um lánshæfismat áður en þú tekur lán, hvað það er, á hverju það er byggt, hvernig þú getur hækkað lánshæfismatið þitt o.fl.

En byrjum á því að fjalla um hvað lánshæfismat er. Lánshæfismat er gert til þess að kanna hversu áreiðanlegt er fyrir lánveitanda að lána þér. Það er gert með því að meta hversu líklegt er að þú getir ekki efnt lánsamning og munir ekki greiða af láninu. Lánveitandi vill fá gott mat á áhættu á tapi hjá sér og mögulegum vanda­mál­um sem geta komið upp við að lána þér.

Í hvað er lánshæfismat notað?

Lánshæfismat er notað þegar þú tekur lán t.d. húsnæðislán, bílalán, framkvæmdalán eða neytendalán. Hins vegar geta önnur fyrirtæki sem þú ert í reikningsviðskiptum við t.d. símafyrirtæki eða tryggingarfélög, vaktað lánshæfismatið þitt.

Fyrirtæki sem sækja lánshæfismat eiga það sameiginlegt að þau eru að veita lán til viðskiptavinar og vilja því upplýsingar um viðskiptavininn til að sjá hversu traustur lánsaðili hann er. Þannig getur lánveitandi minnkað sína áhættu við lánsveitinguna. Lánveitendum er meiri að segja skylt skv. neyt­enda­lögum að framkvæma lánshæfismat áður en lánað er.

Á hverju er lánshæfismat byggt?

Mynd fengin frá Creditinfo

Mynd fengin frá Creditinfo

Lánveitendur sem framkvæma lánshæfismat byggja matið á mismunandi gögnum og hafa gögnin mismunandi vægi. Hér að ofan má sjá hvaða gögn t.d. Creditinfo byggir á þegar þeir meta lánshæfi einstaklinga og er lánshæfið metið á skal­anum A til E (þar sem A er best). Creditinfo er upplýsinga- og þjónustufyrirtæki, og nota margir lánveitendur lánshæfismat þeirra.

Ef lánveitendur eiga til viðskiptasögu um þig (t.d. viðskiptabankinn þinn), þá er líklegt að þeir noti hana til að meta lánshæfi þitt. Eigi lánveitandinn ekki viðskiptasögu um þig, getur hann til að mynda notað lánshæfismat Creditinfo. Dæmi um gögn sem lánshæfismat getur verið byggt á:

Fyrrum skráningar á vanskilaskrá, Viðskiptasögu þinni við fyrirtækið sem gerir lánshæfismat á þér (t.d. banki eða tryggingarfélar), Upplýsingum úr skattskrá, Tengslum við fyrirtæki, Aldri og búsetu, Hjúskaparstöðu

Hér er nauðsynlegt að athuga að sumir þættir geta haft meira vægi en aðrir. Til að mynda vega upplýsingar úr vanskilaskrá oftast mjög mikið en t.d. aldur, búseta, hjúskaparastaða og tengsl við fyrirtæki minna.

Hvernig veit ég lánshæfismatið mitt?

Lánshæfismat er flett upp þegar þú sækir um lán hjá lánastofnun eða þegar þú hefur reikningsviðskipti við fyrirtæki. Þú getur þó skoðað lánshæfismat þitt hjá CreditInfo en það getur skipt miklu máli að vita hvar maður stendur, eins og verður fjallað um hér neðar.

Creditinfo býður einstaklingum að skoða lánshæfiseinkunn sína endurgjaldslaust einu sinni á ári á þjónustuvef sínum. Þar er einnig hægt að sjá hvaða fyrirtæki hafa flett upp lánshæfismati þínu.

Mynd fengin frá Creditinfo

Mynd fengin frá Creditinfo

Af hverju er lánshæfismat mikilvægt?

Lánshæfismat er fyrst og fremst mikilvægt til að geta fengið lán og stundað reikningsviðskipti (við t.d. símfélög eða tryggingarfélög).

Hinsvegar getur gott lánshæfismat verið hagstætt fyrir þig því það er alltaf að verða algengara og algengara að lánastofnanir veiti mismunandi kjör eftir því hversu mikil áhætta því fylgir að lána einstaklingi (þetta á meira við um t.d. neytendalán en húsnæðislán). Þannig ef þú ert með gott lánshæfismat getur þú í sumum tilfellum fengið betri kjör, til að mynda í formi hagstæðari vaxta, hærra láns eða lengri lánstíma.

Þú getur einnig notað gott lánshæfismat sem rökstuðning fyrir betri lánakjörum, því gott lánshæfismat sýnir að þú sért ábyrgur greiðandi. Ef þig vantar aðeins hærra húsnæðislán en lánveitandi segir að hægt sé að fá eða vantar að lengja lánstímabilið örlítið, að þá má reyna að benda á gott lánshæfismat sem rökstuðning í samningsviðræðum við lánveitanda.

Hvernig get ég hækkað lánshæfismatið mitt?

Þú getur haft áhrif á lánshæfismatið þitt, en með því að hækka það gætir þú átt betri möguleika á lánveitingu og einnig haft betri samningsstöðu um kjör láns.

Það getur verið breytilegt á milli lánveitenda hvað hægt er að gera til þess að hækka lánshæfismatið sitt þar sem matið er ekki framkvæmt eins hjá öllum. Hér eru þó nokkur atriði sem þú getur farið yfir sem gætu hjálpað þér að hækkað matið þitt:

1. Forðast vanskil: Borga reikningana á réttum tíma og forðast þar af leiðandi vanskil er það mikilvægasta sem þú getur gert.

2. Yfirfara tengsl við fyrirtæki: Þú getur kannað hvort þú ert með tengsl við fyrirtæki sem lækka matið þitt, t.d. kannað hvort þú sitjir í stjórn fyrirtækis sem þú hefur gleymt sem hefur lágt lánshæfismat (sem dregur þig niður).

3. Sambúð: Það að einstaklingur er skráður í sambúð eða giftur er líklegt til að hafa jákvæðari áhrif á lánshæfismatið en ef einstaklingur er ekki skráður í sambúð. Það er talið meira fjárhagslegt öryggi að vera með tvennar tekjur. Þessi þáttur vegur þó oft ekki ýkja mikið í lánshæfismati.

Það eru dæmi um að fólk eigi erfitt með að hækka lánshæfismatið sitt vegna þess að sá sem framkvæmir lánshæfismatið getur ekki litið til upplýsinga, eins og skuldastöðu eða greiðsluhegðunar, sem gæti hjálpað einstaklingi. Þetta er ákveðið vandamál sem bitnar mikið á einstaklingum sem hafa lent á vanskilaskrá.

Þetta getur líka bitnað á ungu fólk þar sem takmarkaðar upplýsingar eru til að meta það vegna ungs aldurs. Þá eru til litlar upplýsingar í kerfinu sem eru aðgengilegar framkvæmdaraðila lánshæfismatsins sem leiðir til þess að einstaklingur fær ekki eins gott lánshæfismat en ella.

Hver er munurinn á greiðslumati og lánshæfismati?

Þegar þú ert í húsnæðislána hugleiðingum muntu rekast á orðin greiðslumat og lánshæfismat, en þessi tvö fyrirbæri eru tvennt ólíkt. Eins og hefur verið fjallað um hér að ofan að þá er lánshæfismat mat á því hversu líklegt er að einstaklingur lendi í vanskilum og greiði ekki af láni.

Greiðslumat er á hinn bóginn mat á greiðslugetu einstaklings, þ.e. hversu háa upphæð hann getur greitt af nýju láni. Það er framkvæmt til að lánveitandi geti fullvissað sig um að einstaklingur ráði við greiðslur af láni af ákveðinni upphæð.

Aurbjörg finnur tækifæri í fjármálum heimilisins
Láttu Aurbjörgu standa vaktina og hjálpa þér að taka betri ákvarðanir í fjármálum.
Gerast áskrifandi
Aurbjörg
Markmið Aurbjargar er að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða þig við að taka upplýstari og betri ákvarðanir í fjármálum.
RannisTaekniþrounarsjod
©2024 • Aurbjörg ehf. • 430518-1430 • Lágmúla 9 • 108 Reykjavík