... það eru margir að hugsa um þetta ...

Haustið er gengið í garð, laufin falla af trjánum, skólar eru farnir í gang („Velkomin rútína“ gætu sumir sagt) ... en í fréttum er það helst að vextir eru háir og fastir vextir sumra lána eru að losna.

Hvað þýðir það?

Við hjá Aurbjörgu viljum reyna að útskýra hvað það þýðir á mannamáli og varpa svo ljósi á hvað væri hægt að gera næst.

Áður en lengra er haldið, þá munum við ræða fjögur hugtök nokkuð oft í þessum texta. Þetta eru tvenns konar vextir á tvenns konar lánum. Ekki láta þér bregða: 

Fastir vextir

Þegar lán er tekið og vaxtaprósenta er bundin eða föst úr vissan tíma, oft 3-5 ár. Þessi aðferð tryggir lántakandann fyrir vaxtasveiflum. Lántakandi getur tekið lán á 3% föstum vöxtum og ef vextir fara svo hækkandi í 5 ár á eftir, þá hefur ákvörðunin að festa vextina verið góð fyrir lántakandann. 

Breytilegir vextir

Þá breytast vextir eftir sveiflum á markaði og þeir taka mið af vaxtatöflu þeirrar fjármálastofnunar sem veitir lánið. Breytilegir vextir sveiflast hratt til og frá eftir vaxtastigi hverju sinni. 

Verðtryggð lán

Lán með lægri vaxtaprósentu en við hana bætist verðbólguprósenta. Vextir verðtryggðra lána eru því samsettir úr tveimur tölum sem eru lagðar saman.

Dæmi: 3% vextir og 4% verðbólga eru 3% + 4% =7% vextir í raun.

Ef vaxtastig er hátt og verðbólgan líka há, þá eru vextir á slíkum lánum háir. En ef vaxtastigið er lágt og verðbólgan líka, þá eru vextirnir lágir. 

Óverðtryggð lán

Lán sem eru ekki tengd við verðbólguna. Vextirnir eru hærri enda bara ein vaxtatala (ekki samsett úr tveimur eins og í verðtryggðum lánum).

Er hægt að blanda þessu saman?

Já, það er hægt að vera með verðtryggt lán á föstum eða breytilegum vöxtum og það er líka hægt að vera með óverðtryggt lán á föstum eða breytilegum vöxtum.

...... Ókey? Höldum áfram!

Allflestir vita af því að vaxtastigið er hátt þessa dagana því að seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti 14 sinnum síðan 2021. Það þarf ekki að skýra frekar hér.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, beindi orðum sínum til lántakenda á fundi fjármálastöðugleikanefndar þann 20. September 2023. Þar var hann sérstaklega að tala til þeirra lántakenda sem eru með fasta vexti á lánunum sínum (verðtryggðum og óverðtryggðum) sem gætu verið að losna fljótlega. Vegna þess að þá verða breytingar hjá þeim. Mánaðarlegar afborganir þeirra eru líklega að hækka mikið. Þá erum við komin að spurningunni sem þetta blogg vill reyna að svara.

En fyrst smá dæmi...

Drögum upp eina grófa sviðsmynd:

  50 milljóna króna lán

  Óverðtryggt

  til 30 ára. 

  Festum verðbólgu í ímyndaðri tölu út tímann.

  Veðsetning húsnæðisins sem lánið hvílir á er 70%.

Það þýðir að lánið er 70% af heildarverði húsnæðisins og þá er heildarverðið líklega 71 milljón að virði. Það er mismunandi hvort lánað sé eftir fasteignamati eða markaðsvirði.

Allar vaxtatölur koma úr ónefndum banka.

Þeir sem festu vextina sína fyrir t.d. 3 árum, í september 2020 - voru að greiða 4,10% vexti af láninu sínu á ári.

Þegar þeir vextir losna núna um þessi mánaðarmót, þá breytast vextir lánsins sjálfkrafa í breytilega vexti - 10,75% vexti á ári.

Þessi breyting er kannski lítil á blaði en munurinn á mánaðarlegum afborgunum er mjög mikill. Gróflega reiknað fyrir lánið hér að ofan er munurinn ca:

    • 309.000,- kr á 4,10% vöxtum en

    • 587.000,- kr á 10,75% vöxtum

(tökum samt allan fyrirvara um rangan innslátt og lélegan reikning)

Þetta gæti verið raunveruleiki margra sem náðu að festa vextina á „góðum tíma“ og eru nú að keyra af malbikinu yfir á holóttan sveitaveg.

Og hvað er hægt að gera í stöðunni?

Ásgeir seðlabankastjóri hefur undanfarið hvatt lántakendur til að kanna málin, velta upp mismunandi kostum. Einn kostur gæti verið sá að gera ekki neitt sem gæti gengið ef lántakandinn hefur nóg milli handanna. Ef sá kostur er hins vegar ekki í boði, þá er gott að tala við bankann sinn eða leita annara kosta. Sumir myndu á svona tíma endurfjármagna lánin sín, þ.e. taka annað lán eða önnur lán með öðrum forsendum (verðtryggt, óverðtryggt, fastir eða breytilegir vextir, banki eða lífeyrissjóður) sem væru kannski með viðráðanlegri greiðslubyrði.

Við slíkar aðstæður er afar gott að hafa yfirlit yfir ýmsa lánakosti hjá mörgum bönkum og lífeyrissjóðum. Við hjá Aurbjörgu bjóðum vissulega lánareikninn okkar fyrir áskrifendur okkar. Í lánareikninum getur þú skráð lánin sem hvíla á húseigninni þinni og við skráum á móti fasteignamat eignarinnar þinnar. Eftir að þú hefur skráð inn tekjurnar þínar (og maka), þá getur þú stungið upp á nýrri lánsfjárhæð sem gæti hentað þér. Aurbjörg setur þá upp tvær samanburðartöflur þar sem hægt er að finna lán með „Lægsta mánaðargreiðslu“ eða „Lægsta heildargreiðslu“.

Það skal líka tekið fram að hægt er að smella á "Endurfjármagna" og velja núverandi lán. Mjög fljótlegt og þægilegt!

Ef þú ert með lán á föstum vöxtum, kannaðu þá hvenær þeir losna. Vertu tímanlega í því að tala við þá lánastofnun sem þú átt í viðskiptum við og kannaðu aðrar leiðir hjá þeim.

Ef þú vilt vita hvort þú getir tekið lán hjá lífeyrissjóðum, kannaðu þá hvort þú hafir greitt í þá með því að skrá þig inn á heimasíðu þíns lífeyrissjóðs og leita svo að „Lífeyrisgátt“. Þar sérðu alla sjóði sem þú hefur greitt í.

Ef þú vilt fá betri yfirsýn og geta jafnvel tekið betur upplýstar ákvarðanir, þá er Aurbjörg vinur í raun.

https://min.aurbjorg.is/loan-calculator

Aurbjörg

Aurbjörg
27.09.23