Hvað eru stýrivextir og hvaða áhrif hafa þeir á mig?

Stýrivextir eru í sinni einföldustu mynd verð á peningum sem fjármálastofnanir “kaupa” af Seðlabankanum. Í dag eru stýrivextir 6,5% sem má túlka sem svo að fjármálastofnanir geta fengið lánaðan pening frá Seðlabankanum á 6,5% vöxtum og lagt inn pening og fengið 6,5% ávöxtun. 

Fjármálastofnanir horfa til stýrivaxta Seðlabankans og ákveða sína vaxtatöflu út frá þeim. Í dag eru t.d. hæstu óverðtryggðu vextirnir á óbundnum sparnaðarreikningi 5,8% (innlán) og lægstu vextir á óverðtryggðu húsnæðisláni með breytilegum vöxtum 6,9% (útlán).

Þegar stýrivextirnir Seðlabankans voru lægstir í maí 2021 og stóðu í 0,75% þá voru hæstu vextirnir 1% (innlán) og lægstu vextir 3,3% (útlán). 

Þegar stýrivextir hækka hafa þeir mest áhrif á lán á breytilegum vöxtum. Hærri stýrivextir þýða hærri vexti á innlán, sem hvetur til sparnaðar. Hærri stýrivextir þýða hins vegar einnig hærri vexti á útlán, sem leiðir til þess að óhagstæðara er að taka lán.

Samanburður á lægstu vöxtum í boði á óverðtryggðum húsnæðislánum á breytilegum vöxtum, hæstu innlánsvöxtum og stýrivöxtum Seðlabankans á hverjum tíma fyrir sig. 
Samanburður á lægstu vöxtum í boði á óverðtryggðum húsnæðislánum á breytilegum vöxtum, hæstu innlánsvöxtum og stýrivöxtum Seðlabankans á hverjum tíma fyrir sig. 

Áhrif stýrivaxta á húsnæðislán 

Í dag hækkuðu stýrivextir Seðlabankans um 0,5% og standa því í 6,5%. Hvaða áhrif hefur það t.d. á húsnæðislán á breytilegum vöxtum ef vextir hækka um 0,5%? Ef við tökum til dæmis 54 mkr. húsnæðislán og gefum okkur að lánið sé óverðtryggt og á breytilegum vöxtum til 40 ára, þá mun greiðslubyrði hækka um rúmlega 23.000 kr. á mánuði eða um 4.250 kr. fyrir hverjar 10 milljónir, að því gefnu að lánastofnunin hækki vexti sína í samræmi við stýrivaxtahækkunina.

Vaxtahækkanir hafa strax áhrif á ráðstöfunartekjur fólks með óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum og dæmi eru um að þær geti verið íþyngjandi fyrir rekstur heimilisins. Áskrifendur Aurbjargar hafa aðgang að öflugri húsnæðislánareiknivél sem tekur mið af öllum húsnæðislánum sem standa til boða á markaðnum í dag og hefur m.a. verið fjallað um hér.

Aurbjörg

Aurbjörg
08.02.23