Allt sem þú þarft að vita um greiðslumat

Greiðslumat er úttekt á fjárhagslegri stöðu umsækjanda og tekur það mið af tekjum og gjöldum, eignum og skuldum. Niðurstaða greiðslumats segir til um greiðslugetu umsækjanda, þ.e., sú upphæð sem umsækjandi hefur afgangs eftir að útgjöld umsækjanda s.s. neysla, rekstur fasteigna og bifreiða, auk annarra lána, eru dregin frá ráðstöfunartekjum. Greiðslumat gefur því gott mat á því hversu mikið svigrúm er til staðar til að greiða af nýju láni.

Samkvæmt lögum um neytendalán ber lánveitanda að framkvæma greiðslumat við lánveitingu ef fjárhæð lánssamnings er 2.000.000 kr. eða meira. Þegar hjón eða sambúðarfólk eru að taka lán skal framkvæma greiðslumat ef fjárhæð lánssamnings er 4.000.000 kr. eða meira.

Ber að nefna að niðurstaða greiðslumats felur ekki í sér ákvörðun um lánveitingu. Ef niðurstaða greiðslumats er neikvæð að þá getur lánveitandi veitt lánið á grundvelli frekari upplýsinga frá umsækjanda sem sýna fram á að umsækjandi geti staðið í skilum með lánið.

Það er mismunandi eftir lánveitendum hvaða upplýsingar og gögn eru nauðsynleg til að framkvæma greiðslumat, en oftast þarf að safna saman launaseðlum, skattframtali, ásamt öðrum fylgiskjölum.

Hjá flestum lánveitendum þarf umsækjandi sjálfur að skila inn nauðsynlegum gögnum, en hjá öðrum, til að mynda Íslandsbanka og Landsbankanum, getur umsækjandi veitt umboð til að sækja fjárhagslegar upplýsingar rafrænt. Hjá enn öðrum eins og Arion banka er allt ferlið orðið rafrænt og því hægt að frá niðurstöðu greiðslumats á nokkrum mínútum.

Aurbjörg

Aurbjörg
09.02.18