Samanburður á sparnaðarreikningum

Í samanburðinum á sparnaðarreikningum, er hægt að bera saman reikninga eftir binditíma þeirra og sjá hve háa vexti þeir bera. Ef ákveðin skilyrði fylgir reikningi, eins og lágmark innistæða, þá birtast þau þegar músarbendli er hvílt yfir viðkomandi reikningi. Flestir reikningar eru óverðtryggðir, en verðtryggðir reikningar eru flokkaðir í sér töflu neðst í samanburðinum. Samanburður á reikningunum er óháður.

Að spara

Skynsamlegt er að taka til hliðar í hverjum mánuði ákveðna upphæð, til dæmis af launum, og safna fyrir því sem þig langar í eða til að setja í varasjóð til að standa straum af óvæntum útgjöldum. Mundu að margt smátt gerir eitt stórt. Tilvalið er að geyma sparnað inni á sparnaðarreikningi og ávaxta þannig upphæðina. Margir sparnaðarreikningar eru í boði en við val á sparnaðarreikningi er gott að spyrja sig hvað það er sem skal spara fyrir og í hversu langan tíma skal binda sparnaðinn.

Verðtryggðir og óverðtryggðir reikningar

Hjá öllum bönkunum er hægt að velja á milli verðtryggðra eða óverðtryggðra sparnaðarreikninga.
Verðtryggðir sparnaðarreikningar henta vel ef spara skal í lengri tíma, en stysti binditími fyrir verðtryggðan reikning er 3 ár. Með því að hafa sparnað inni á verðtryggðum reikningi er tryggt að verðbólga muni ekki rýra sparnaðinn, þ.e. upphæð sparnaðarins heldur verðgildi sínu, auk ávöxtunar.

Vextir og binditími sparnaðarreikninga

Sparnaðarreikningar hafa mislangan binditíma. Í boði eru reikningar sem hafa allt frá engum binditíma, upp í allt að 5 ára binditíma. Fylgist það oft í hendur að því lengri sem binditíminn er, því hærri eru vextir á reikningnum. Skynsamlegt getur því verið að binda sparnað í sem lengstan tíma, eða í þann tíma sem notandi þarf ekki á sparnaðinum að halda.
Vextir geta einnig ákvarðast eftir þeirri upphæð sem er inn á sparnaðarreikningnum og fara þá vextirnir hækkandi eftir því sem innistæðan er hærri.

Mismunandi skilyrði sparnaðarreikninga

Sparnaðarreikningar eru mismunandi eins og þeir eru margir en fyrir suma reikninga eru ákveðin skilyrði svo hægt sé að stofna þá. Á sumum reikningum er krafa um lágmarksinnistæðu. Nafn hvers reiknings gefur oft til kynna hvernig reikningurinn er og til hvers hann höfðar, t.d. eru Framtíðarreikningur og Framtíðargrunnur aðeins fyrir börn 18 ára og yngri. Eins eru sparnaðarreikningarnir Fasteignagrunnur og Húsnæðissparnaður aðeins fyrir fólk á aldrinum 15 til 35 ára.
Það eru einnig önnur atriði sem þarf að hafa í huga. Til dæmis eru margir verðtryggðir reikningar með ákvæði um að eftir að binditíma er lokið að þá er fjárhæðin laus í 1 mánuð á 6 mánaða fresti.

"Líkar þér vefsíðan mín? Gerðu vinum þínum greiða og láttu þá vita svo þeir geta notað vefsíðuna líka!" 🎉