Aurbjörg.is – Notendaskilmálar

Hér fyrir neðan eru útlistaðir þeir skilmálar sem eiga við um aðgang þinn og notkun á vefnum aurbjorg.is sem Hugbúnaðarþróun ehf., kt 680317-0970 (hér eftir nefnt Aurbjörg), á og rekur. Með því að nota Aurbjorg.is samþykkir þú að hlýta öllum notkunarskilmálum Aurbjargar eins og þeir eru á hverjum tíma (sjá líka: „Breytingar á skilmálum“ hér fyrir neðan).

1. Um þjónustu Aurbjargar

Þjónusta Aurbjargar inniheldur upplýsingar fyrir fjármál einstaklinga í formi hugbúnaðar sem flokkar og greinir upplýsingar af vefsvæðum þriðja aðila, s.s. fjármálafyrirtækjum, orkufyrirtækjum o.fl. (samstarfsaðilar) í þeim tilgangi að auðvelda notendum að bera saman þá kosti sem eru í boði hverju sinni, sem og hafa samskipti við hlutaðeigandi samstarfsaðila í þeim tilgangi að kanna og eftir atvikum stofna til viðskiptasambands.

Aurbjörg er fjártækni (e. fintech) vefsíða sem hjálpar þér með fjármálin. Markmið Aurbjargar er að auka fjármálalæsi, auka gagnsæi og aðstoða neytendur við ákvarðanir tengdar fjármálum heimilisins. Samanburðir á Aurbjörg.is eru óháðir öðrum fjármála- og þjónustufyrirtækjum. Á vefsíðunni má finna ýmsar þjónustur tengdar sparnaðarreikningum, kortum, fasteignaviðskiptum og húsnæðislánum. Tilgangur vefsíðunnar er að auðvelda notendum að fræðast um fjármál og finna hagstæðustu kjörin fyrir lán, sparnað o.fl. Einnig gefst notendum kostur á því að kanna markaðsvirði fasteigna í tengslum við fjármögnun og/eða kaup/sölu. Þjónustan kann einnig að innihalda greinar og fróðleik um heimilisfjármál og hefur það markmið að stuðla að ábyrgri fjármálahegðun á sem auðveldastan og skilvirkastan hátt.

Hluti þjónustu Aurbjargar felst í að birta reglulega ábendingar/skilaboð (á heimasíðu, notendasvæði eða netfang/símanúmer notanda) og hagnýtar upplýsingar sem kunna að vera sniðnar að þínu persónusniði („profile“) eins og það birtist í upplýsingum sem þú hefur vistað á notendasvæði Aurbjargar eða öðrum gögnum. Þjónustan kann einnig að vera fjármögnuð að hluta með auglýsingum eða skilaboðum á vefsvæði Aurbjargar eða í gegnum tölvupóstfang notanda. Allar auglýsingar á vefsvæði Aurbjargar birtast á afmörkuðum auglýsingasvæðum og er gerður skýr greinarmunur á þeim og hagnýtum upplýsingum sem Aurbjörg ritstýrir og enginn hefur greitt fyrir. Aurbjörg getur ákveðið birtingu auglýsinga og/eða sendingu persónubundinna ábendinga/skilaboða út frá persónusniði notanda eins og það birtist í þeim upplýsingum sem notandi hefur vistað á notendasvæði Aurbjargar eða í öðrum gögnum. Auglýsendum og samstarfsaðilum Aurbjargar er aldrei veittur aðgangur að persónulegu upplýsingum notanda hvort sem það eru persónuupplýsingar, fjármálaupplýsingar eða önnur gögn. Hagnýtar upplýsingar og auglýsingar sem kunna að birtast á vefsvæði Aurbjargar geta innihaldið vefkrækjur á vefsvæði þriðja aðila sem eru í samstarfi við Aurbjörgu og hinu sama gildir um ábendingar/skilaboð til notenda.

Á vefsvæði Aurbjargar, þ.m.t. notendasvæði, gefst þér kostur á að tilteknar þjónustur og birtast þá upplýsingar um slíkt þegar við á.

2. Samþykki skilmála þessara

Með því að nota upplýsingar, verkfæri og virkni á notendasvæði Aurbjargar (saman nefnt „þjónustan“), samþykkir þú að hlýta þessum skilmálum, hvort sem þú ert „gestur“ (sem merkir að þú hefur farið inn á vefsvæðið aurbjorg.is) eða skráir „notandi“ (sem merkir að þú hefur stofnað notendaaðgang að Aurbjorgu). Orðin „þú“ og „notandi“ í öllum beygingarmyndum í þessum skilmálum vísa til gests eða notanda. Ef þú óskar eftir því að gerast notandi, eiga samskipti við aðra meðlimi og nýta þér þjónustuna, þá verður þú að lesa þessa skilmála og samþykkja í skráningarferlinu. Til notkunar telst m.a. skoðun, upplýsingaöflun og/eða nýting þeirrar þjónustu sem í boði er á vefsvæðinu aurbjorg.is á hverjum tíma. Öll notkun vefsins takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist og þær upplýsingar og þá þjónustu sem boðið er upp á á hverjum tíma.

3. Persónuvernd

Öryggis- og persónuverndarstefna Aurbjargar, sem telst hluti af þessum skilmálum, inniheldur ítarlegar upplýsingar um öryggismál og meðferð Aurbjargar á persónuupplýsingum þínum. Aurbjörg áskilur sér rétt til að uppfæra Öryggis- og persónuverndarstefnuna og er ávallt sú útgáfa í gildi sem er aðgengileg á hverjum tíma á vefsvæðinu Aurbjorg.is.

4. Aðgangur að þjónustu og aðgangsupplýsingar þínar

Þú skilur og samþykkir að þú sért ábyrg(ur) fyrir því að tryggja leynd rafræns auðkennis sem gerir þér kleift að fá aðgang að þjónustunni. Með því að láta Aurbjörgu í té netfang þitt, samþykkir þú að Aurbjörg megi senda þér tilkynningar á netfang þitt í tengslum við aðgang þinn að þjónustunni, þ. á m. tilboð frá samstarfsaðilum (markpóst) og ábendingar Aurbjargar. Notendanafn þitt, lykilorð og aðrar samskiptaupplýsingar sem þú kannt að láta Aurbjörgu í té (t.d. farsímanúmer fyrir SMS tilkynningar) teljast til „aðgangsupplýsinga“ þinna.

Ef þú verður á einhvern hátt var/vör við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar þínar, samþykkir þú að láta Aurbjörgu strax vita með því að senda tölvupóst á aurbjorg@aurbjorg.is

Réttur þinn til að fá aðgang að og nota þjónustuna er bundinn við þig og þér er ekki heimilt að flytja þann rétt til annars manns eða lögaðila. Þér er þó heimilt að veita maka eða sambýlingi aðgang að þínu svæði enda séuð þið með sameiginlegan fjárhag. Þér er einungis heimilt að fá aðgang að og nota þjónustuna í löglegum tilgangi.

Þegar notandi óskar eftir aðgangi að vefsvæði Aurbjargar eru eftirfarandi upplýsingar skráðar:

1. Fullt nafn notanda

2. Kennitala notanda

3. Netfang notanda og/eða símanúmer

4. Upplýsingar sem notandi hefur skráð á opnu vefsvæði Aurbjargar og óskar eftir í beinu framhaldi að stofna aðgang að notendavef Aurbjargar

Skráning og vistun á netfangi og/eða símanúmeri er nauðsynleg ef notandi kýs að eiga samskipti við Aurbjörgu og samstarfsaðila Aurbjargar.

Notandi ber fulla ábyrgð á því að tilkynna Aurbjörgu.is þær breytingar sem hann gerir á netfangi sínu og/eða símanúmeri.

Í greiðslukortaviðskiptum notanda við Aurbjörgu vistar félagið síðustu fjóra tölustafina í greiðslukortanúmerinu og upplýsingar um gildistíma korts. Einnig er sýndarnúmer korts vistað. Sýndarnúmer er öryggisráðstöfun til að minnka hættu á misnotkun kortaupplýsinga. Á greiðslukortayfirliti notanda kemur fram að seljandi er Hugbúnaðarþróun ehf eða Two Birds ehf.

Ofannefndum upplýsingum frá notanda er aldrei deilt með þriðja aðila.

Upplýsingar sem notandi skráir á opið vefsvæði Aurbjargar, s.s. í tengslum við útreikningi og samanburði á lánakjörum, eru skráð á notendavef Aurbjargar óski notandinn eftir því að stofna aðgang í beinu framhaldi af innslætti slíkra upplýsinga. Þetta er gert í þeim tilgangi að auðvelda notanda að senda hlutaðeigandi upplýsingar til samstarfsaðila Aurbjargar, spara sér innslátt sömu upplýsinga aftur þegar hann skráir sig inn á notendasvæði sitt.

5. Hlutleysi Aurbjargar

Þjónustan býður upp á að notendur Aurbjargar.is geti óskað eftir því að nýta virkni vefsvæðisins til að fá upplýsingar eða tilboð frá lánveitendum eða öðrum þjónustuaðilum („samstarfsaðilar“) sem birtast á Aurbjorg.is. Notendur gefa leyfi sitt fyrir því að Aurbjorg sendi þær upplýsingar sem þeir hafa látið af hendi (s.s. lánsfjárhæð, fasteignaupplýsingar, netfang, kennitölu, símanúmer) eða Aurbjörg fær frá þriðja aðila (s.s. Þjóðskrá eða Creditinfo) þegar þeir hafa samband við samstarfsaðila Aurbjargar enda þjóna upplýsingar þeim tilgangi sem er forsenda samskiptanna. Notendur samþykkja og gera sér grein fyrir því að þegar þeir óska eftir samskiptum við samstarfsaðila Aurbjargar þá eru hlutaðeigandi upplýsingar, sem notandi sér áður en hann sendir, sendar viðkomandi samstarfsaðilum en með því að taka ákvörðun um að senda þær samþykkir notandinn vinnslu og miðlun hlutaðeigandi upplýsinga til þess sem móttekur þær. Jafnframt samþykkir notandi að réttur móttakandi upplýsinganna hafi heimild til þess að bregðast við á þann hátt sem notandi óskar eftir.

Aurbjörg er hlutlaus aðili og tekur ekki á nokkurn hátt afstöðu til slíkra upplýsinga eða tilboða. Hlutleysi Aurbjargar felur í sér, en er ekki takmarkað við, að Aurbjörg tekur ekki á nokkurn hátt afstöðu til hvort upplýsingar séu réttar, löglegar eða siðlegar. Aurbjörg ber enga ábyrgð á upplýsingum, vörum og þjónustu á vefsvæðum þriðja aðila þó þær séu sýndar á Aurbjorg.is.

Aurbjorg getur ekki alltaf séð fyrir tæknileg eða annars konar vandamál sem kunna að valda því að ekki sé hægt að sækja upplýsingar, að gögn glatist eða þjónusturof verði á annan hátt. Aurbjorg reynir að tryggja áreiðanleika eftir fremsta megni en ber ekki ábyrgð á því að samskipti, stillingar eða gögn birtist rétt, eyðist, vistist eða skili sér til notenda vefsvæðis Aurbjargar. Aurbjörg ábyrgist heldur ekki að nýjustu gögn séu ávallt sýnileg eða aðgengileg á vefsvæði Aurbjargar heldur endurspegla þau aðeins hvenær Aurbjörg sótti síðast gögn til annarra aðila.

6. Hagnýtar upplýsingar, auglýsingar og markpóstur

Aurbjörg ábyrgist ekki á nokkurn hátt vörur og þjónustu þriðja aðila sem kann að vera getið á vefsvæði Aurbjargar, hvort sem um auglýsingu er að ræða eða ekki. Aurbjörg ábyrgist ekki heldur að verð eða viðskiptaskilmálar þriðja aðila á vöru eða þjónustu sem eru birtir eða auglýstir á vefsvæði Aurbjörgar séu réttir, hagstæðir eða að hægt sé í raun að kaupa slíka vöru og þjónustu á því verði eða með þeim skilmálum sem kunna að birtast á vefsvæði Aurbjargar.

7. Tilkynningar og markaðssetning með tölvupósti og SMS skilaboðum

Af og til kann Aurbjörg að senda þér nauðsynlegar tilkynningar með rafrænum hætti vegna skráningar og aðgangs þíns eða notkunar á þjónustunni (t.d. þegar aðgangsupplýsingum er breytt) eða aðrar valkvæðar tilkynningar í tengslum við notkun þína á þjónustunni, þ.m.t. frá samstarfsaðilum. Þegar aðgangur þinn að þjónustunni er stofnaður í fyrsta sinn kann að vera að þú verðir skráður fyrir sumum valkvæðum tilkynningum, þ.m.t. frá samstarfsaðilum. Þú getur síðan hvenær sem er breytt, afskráð eða skráð þig fyrir öllum valkvæðum tilkynningum. Af og til kann Aurbjörg að bæta við nýjum tegundum tilkynninga eða fjarlægja tilteknar tegundir tilkynninga.

Aurbjörg hefur milligöngu um að senda auglýsingar eða tilboð frá samstarfsaðilum sínum til notenda á Aurbjorg.is enda tengist slíkt þeirri þjónustu sem notendur hafa aðgang á vefsvæði Aurbjargar. Í slíkum tilvikum er engum persónugreinanlegum upplýsingum notenda miðlað til samstarfsaðila Aurbjargar (s.s. netfangi eða nöfnum móttakanda). Í þeim tilvikum sem notandi greiðir mánaðarlegt gjald (eða árgjald) fyrir aðgang sinn að notendavef Aurbjargar þá getur hann afþakkað fyrrgreindar sendingar eða valið þá tegund sem hann kýs að fá. Hafi notandi aðgang að fríu notendasvæði Aurbjargar þá getur hann ekki hafnað fyrrgreindum sendingum en getur þá lokað aðgangi sínum eða valið að fara í áskriftarþjónustu. Tíðni útsendinga auglýsinga/tilboða mun alla jafna miðast við að sendingar tengdar auglýsingum/tilboðum frá samstarfsaðilum séu að jafnaði ekki fleiri en ein í hverri viku.

Rafrænar tilkynningar frá Aurbjörgu (þ.m.t. þær sem félagið sendir frá samstarfsaðilum sínum) verða sendar á netfangið sem þú hefur gefið upp sem aðalnetfang þitt fyrir Aurbjorg.is. Þér kann líka að vera boðið að fá tilteknar tilkynningar sendar sem textaskilaboð á farsímanúmerið þitt.

Þar sem tilkynningar eru ekki dulkóðaðar munu þær aldrei innihalda lykilorðið þitt. Hins vegar geta tilkynningar innihaldið netfangið þitt (þegar þér er sendur tölvupóstur), farsímanúmer (þegar þér eru send textaskilaboð í farsímanúmer) og upplýsingar sem tengjast fjárhag þínum. Eðli upplýsinga í tilkynningum til þín fer eftir því hvaða tilkynningar þú velur og hvernig þær eru stilltar. Allir sem hafa aðgang að tölvupóstinum þínum munu geta séð innihald þessara tilkynninga. Þú getur hvenær sem er valið að skrá þig úr öllum valkvæðum tilkynningum.

Þú skilur og samþykkir að öllum tilkynningum, sem þér eru sendar með notkun þjónustunnar, gæti seinkað eða ekki borist þér af ýmsum ástæðum. Aurbjörg reynir eftir fremsta megni að tryggja að tilkynningar berist þér fljótt og örugglega en ábyrgist á engan hátt að tilkynningar berist þér eða að tilkynningar innihaldi ávallt nýjustu eða réttar upplýsingar. Þú samþykkir að Aurbjörg ber enga skaðabótaskyldu vegna tilkynninga sem berast seint eða alls ekki eða vegna villna í efni tilkynninga enda séu mistökin ekki gerð viljandi.

8. Réttindi sem þú veitir Aurbjörgu

Með því að skrá þig fyrir þjónustunni og samþykkja skilmála þar að lútandi samþykkir þú að Aurbjörg visti þær upplýsingar sem þú lætur af hendi og nýti með þeim takmörkunum og skilyrðum sem hér greinir:

1. Leyfið er ótímabundið en má afturkalla hvenær sem er á Aurbjorg.is, eftir atvikum með lokun aðgangs.

Aurbjörg mun ekki afhenda, selja eða leigja upplýsingar sem aflað er samkvæmt þessu leyfi til þriðja aðila.

Þér kann að vera gefinn kostur á að veita öðrum notendum vefsins eða utanaðkomandi aðilum aðgang að þínum upplýsingum í tilgangi sem er í samræmi við markmið þjónustunnar, s.s. í tengslum við beiðni um upplýsingar eða tilboð frá samstarfsaðilum Aurbjargar. Slíkt verður aldrei gert nema þú ákveður slíkt sjálfur eða veitir upplýst samþykki fyrir slíku.

Aurbjörgu er heimilt að taka saman tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar ópersónugreinanlegar samantektir án sérstaks samþykkis frá þér og nota í viðskiptalegum tilgangi eða miðla til þriðja aðila enda séu þær aldrei á persónugreinanlegu formi, s.s. þegar samstarfsaðilar óska þess að Aurbjörg sendi markpóst til notenda sinna sem hafa ákveðin persónusnið („profile“).

Leyfið er veitt Aurbjörgu án nokkurra skuldbindinga af hálfu Aurbjargar til að greiða fyrir það og án nokkurra annarra takmarkana sem ekki er getið í þessum skilmálum.

Með því að nota þjónustuna veitir þú samþykki þitt fyrir því að Aurbjörg, fyrir þína hönd, visti og miðli upplýsingum til þeirra sem þú óskar og hefur veitt samþykki fyrir. Þú skilur og samþykkir að þegar þú nýtir Aurbjorg.is til að senda upplýsingar til samstarfsaðila Aurbjargar þá er Aurbjörg að gera slíkt í þínu umboði.

9. Hugverkaréttindi Aurbjargar

Allt innihald vefsvæðis Aurbjargar, þar með talið útlitshönnun (t.d. vörumerki, texti, grafík, myndir), ljósmyndir, hugbúnaður, ritstýrt efni, tilkynningar og annað ótiltekið efni, er varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Innihald vefsvæðis Aurbjargar er eign þess eða notað samkvæmt leyfi frá hugbúnaðar-, gagna- eða efnisveitum sem félagið á í viðskiptasambandi við, ellegar hefur óyggjandi heimild til að nota. Aurbjörg veitir notanda leyfi til að skoða og nota notendavef Aurbjargar samkvæmt þessum skilmálum. Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af innihaldi notendasvæðisins í einhverjum öðrum tilgangi, hvort heldur sem er að hluta eða heild, er notanda með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Aurbjargar.

10. Aðgangstakmarkanir

Allt innihald vefsvæðis Aurbjargar, þar með talið útlitshönnun (t.d. vörumerki, texti, grafík, myndir), ljósmyndir, hugbúnaður, ritstýrt efni, tilkynningar og annað ótiltekið efni, er varið samkvæmt höfundarréttar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Innihald vefsvæðis Aurbjargar er eign þess eða notað samkvæmt leyfi frá hugbúnaðar-, gagna- eða efnisveitum sem félagið á í viðskiptasambandi við, ellegar hefur óyggjandi heimild til að nota. Aurbjörg veitir notanda leyfi til að skoða og nota notendavef Aurbjargar samkvæmt þessum skilmálum. Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af innihaldi notendasvæðisins í einhverjum öðrum tilgangi, hvort heldur sem er að hluta eða heild, er notanda með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki Aurbjargar.

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki nota neins konar forrit, hugbúnað eða annars konar aðferðir til að heimsækja, nota eða leita að gögnum á vefsvæði Aurbjorg.is nema með almennum vöfrum (t.d. Microsoft Internet Explorer) og almennum leitarvélum (t.d. Google).

Þú samþykkir einnig að þú munt ekki senda skrár eða gögn á vefsvæði Aurbjargar sem gætu flokkast sem tölvuvírus, tölvuormur eða trjóuhestur eða innihalda einhvers konar skaðlega eiginleika eða sem gætu á einhvern hátt truflað eðlilega virkni Aurbjorg.is eða þjónustunnar.

11. Upplýsingar sem þú skráir hjá Aurbjorg.is

Þjónustan felur í sér að notendum er gert kleift að setja inn upplýsingar á vefsvæði Aurbjargar sem verða vistaðar og miðlað til samstarfsaðila að þinni beiðni eða með upplýstu samþykki þínu. Þú samþykkir hér með að fylgja eftirfarandi reglum þegar þú skráir inn upplýsingar á vefsvæði Aurbjargar:

1. Þú ert ábyrg(ur) fyrir öllu efni sem þú skráir hjá Aurbjorg.is

2. Upplýsingarnar sem þú skráir og miðlað er til samstarfsaðila gefi glögga mynd af forsendum þínum sem fyrirspurnir þínar til þeirra kunna að grundvallast á.

3. Með því að senda inn efni þá ábyrgist þú að þú hefur öll nauðsynleg réttindi og leyfi til að senda inn efnið og að þú veitir Aurbjörgu ótakmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir öllum framlögum þínum í samræmi við skilmála þessa.

12. Ábyrgðartakmörkun

Á vefsvæði Aurbjargar eru birtar upplýsingar frá þriðja aðila, s.s. fjármálafyrirtækjum, lífeyrissjóðum, Þjóðskrá og fasteignasölum. Í þeim tilvikum sem misræmis kann að gæta í þeim upplýsingum sem birtast á vefsvæðum félagsins og þeim vefsvæðum sem þær eru sóttar til þá skulu upplýsingar þeirra síðarnefndu teljast réttar með þeim fyrirvörum sem birtast á vefsvæðum hlutaðeigandi. Upplýsingar á vefsvæði Aurbjargar teljast ekki skuldbindandi fyrir félagið né þá aðila sem upplýsingarnar koma frá (þriðja aðila). Notendur geta því ekki byggt neinar kröfur hlutaðeigandi upplýsingum og gildir slíkt bæði um kröfur á hendur félaginu sjálfu eða þriðja aðila.

Aurbjörg ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem orsakast beint eða óbeint vegna bilunar í tölvubúnaði og/eða hugbúnaði fyrirtækisins eða notanda eða af öðrum orsökum, sem kunna að valda því að upplýsingar séu ekki réttar eða að notandi nái ekki að tengjast þjónustunni. Aurbjörg ber ekki ábyrgð á óþægindum eða tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði, tengingu við veraldarvefinn, þeim hugbúnaði sem nauðsynlegur er til tengingar við vefsvæði Aurbjargar, vafra eða stýrikerfi notanda eða tölvukerfi Aurbjargar. Aurbjörg ber ekki ábyrgð á tjóni sem

1. hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun notanda

2. rekja má til rangra aðgerða notanda eða annars aðila

3. kann að hljótast, með beinum eða óbeinum hætti, af upplýsingum sem eru aðgengilegar á vefsvæðum félagsins né tjóni rakið til þeirra

4. rekja má til utanaðkomandi atvika t.d. bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h. né tjóna sem talin verða falla undir óviðráðanleg tilvik (force majeure)

13. Þjónusta Aurbjargar er ekki fjármálaráðgjöf

Notandi gerir sér grein fyrir því að vefur Aurbjargar er eingöngu upplýsinga- og greiningarþjónusta sem býður notanda á að leita eftir viðskiptum við samstarfaðila Aurbjargar. Þjónustan er einvörðungu ætluð til upplýsinga til þess að aðstoða fólk við að skipuleggja heimilisfjármálin í almennum skilningi og felur hvorki í sér lögfræðilega né skattalega ráðgjöf eða aðra formlega ráðgjöf sem felur í sér lagalegt samband ráðgjafa og þiggjanda ráðgjafar. Þínir persónulegu fjármálahagir eru einstakir og efni, upplýsingar og virkni á Aurbjorg.is gætu hugsanlega ekki átt við þínar aðstæður.

14. Lokun aðgangs og gildistími þessa skilmála

Þessir skilmálar gilda á meðan þú notar Aurbjorg.is og þangað til aðgangi þínum að vefsvæði Aurbjargar er lokað af þér eða Aurbjörgu. Þú getur lokað aðgangi þínum að Aurbjörgu á vefsvæði Aurbjorg.is. Þegar þú lokar aðgangi þínum eyðir Aurbjorg öllum persónugreinanlegum upplýsingum sem varða þig.

Aurbjörg er hvenær sem er, og án fyrirvara, einhliða heimilt að loka aðgangi þínum að Aurbjörgu með því að senda þér tilkynningu á netfangið sem þú gafst upp við skráningu. T.d. ef þú verður uppvís að misnotkun eða hefur brotið í bága við eitthvert ákvæði þessara skilmála eða ef þú hefur hegðað þér á þann hátt að augljóst sé að þú ætlir ekki eða getir ekki uppfyllt ákvæði þessa skilmála.

15. Skilmálabreytingar

Aurbjörg hefur rétt til að breyta skilmálum þessum einhliða. Komi til breytinga verða allar breytingar við þessa skilmála aðgengilegar á vefsvæði Aurbjorg.is og verða jafnframt tilkynntar þér í tölvupósti eða á áberandi hátt á vefsvæðinu. Komi til breytinga verður þér, næst þegar þú ferð inn á vefsvæði Aurbjargar, gefinn kostur á að samþykkja breytta skilmála. Ef þú kýst að samþykkja ekki breytta skilmála munt þú ekki lengur geta nálgast þjónustuna og verður þér jafnframt gefin(n) kostur á að loka aðgangi þínum sem hefur í för með sér að öllum gögnum og upplýsingum um þig verður eytt sbr. 13. gr. þessara skilmála.

16. Lögsaga, varnarþing ofl.

Skilmálar þessir lúta íslenskum lögum. Ef eitthvert ákvæði skilmála þessara verður dæmt ógilt, ólöglegt eða óhæft til fullnustu, dregur það ekki á neinn hátt úr gildi, lögmæti eða fullnustuhæfi annarra ákvæða skilmálanna. Þú samþykkir að ef Aurbjörg nýtir sér ekki einhvern rétt sinn sem hlýst af þessum skilmálum að þá felur slíkt ekki í sér að félagið afsali rétti sínum. Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.