Skilmálar Aurbjargar

Almennt

Skilmálar þessir gilda um rafræna þjónustu Aurbjargar og notkun á vefsvæði Aurbjargar. Skilmálarnir innihalda ákvæði um réttindi og skyldur notanda (hér eftir „notandi“ eða „þú“) í áskriftarþjónustu og upplifunarferlinu.

Með því að ýta á hnappinn „Ég hef lesið og samþykki skilmála Aurbjargar“ samþykkir þú skilmála að áskriftarþjónustu Aurbjargar (hér eftir „áskrift“ eða „þjónustan“). Skilmálarnir verða áfram aðgengilegir á vefsvæði þínu.

Aurbjörg og áskriftarþjónustan

Aurbjörg er þjónustuvefur fjártæknifyrirtækisins Two birds ehf., kt. 430518-1430, Lágmúla 9, 108 Reykjavík, sem hefur það að markmiði að aðstoða þig með fjármál heimilisins. Með því að nýta sér áskriftarþjónustu Aurbjargar færð þú aðgang að upplýsingum og samanburði á því sem skiptir máli fyrir fjármál heimilisins í formi m.a. samanburðatöflu húsnæðislána, greiðslukorta, rafmagns, bensíns, sparnaðar; reiknivéla fyrir húsnæðislán, bílalán og skammtímalán; aðgangi að verðmati fasteignar, innlánsreikninga og yfirlits yfir þínar eignir, skuldir, tekjur og gjöld ásamt ýmis fróðleiks um fjármál heimila almennt. Aurbjörg áskilur sér rétt til að ákvarða einhliða þá þjónustu sem er í boði hjá Aurbjörgu á hverju tíma og auka eða minnka við hana ef þörf krefur.

Notandi greiðir fyrirfram mánaðarlegt áskriftargjald fyrir þjónustu Aurbjargar samkvæmt verðskrá Aurbjargar sem sjá má á forsíðu vefsvæðis Aurbjargar, www.aurbjorg.is . Áskrift tekur gildi um leið og aðgangur er stofnaður og fyrsta greiðsla hefur verið framkvæmd. Áskriftargjald er skuldfært af greiðslukorti mánaðarlega og endurnýjast þá áskriftartímabilið sjálfkrafa, nema þú hafir áður sagt upp áskriftinni í samræmi við skilmála þessa. Á greiðslukortayfirliti kemur fram að seljandi sé Two birds ehf. Kortafærslur fara í gegnum örugga greiðslusíðu SaltPay.

Aurbjörg áskilur sér rétt til að breyta verðskrá með tilkynningu til notanda á uppgefið netfang eða símanúmer.

Allar tilkynningar til Aurbjargar og fyrirspurnir varðandi skilmála þessa skal senda á netfangið aurbjorg@aurbjorg.is.

Aðgangur og innskráning

Við stofnun áskriftar og aðgangs að þjónustuvef Aurbjargar er notast við innskráningu með rafrænu auðkenni. Þú velur innskráningu með rafrænum skilríkjum í gegnum innskráningarviðmót Island.is. Eftir auðkenningu þarf samþykki fyrir skilmálum þessum og vinnslu persónuupplýsinga til þess að geta nýtt sér áskriftarþjónustu Aurbjargar.

Aurbjörg áskilur sér rétt til að ákveða einhliða breytingar á innskráningarleiðum í áskrift.

Þú ert ábyrg/ur fyrir því að vernda aðgangsauðkenni þín og gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja leynd þeirra. Ef þú verður vör/var við að óviðkomandi aðili hafi komist yfir aðgangsupplýsingar þínar skalt þú láta Aurbjörgu vita eins fljótt og auðið er með tölvupósti á aurbjorg@aurbjorg.is.

Óheimilt er að veita öðrum einstaklingi eða lögaðila aðgang að áskrift þinni. Einnig er óheimilt að nota aðgang og áskrift Aurbjargar í hvers konar ólögmætum tilgangi. Þá er óheimilt að senda skrár eða gögn á vefsvæði Aurbjargar sem gætu innihaldið tölvuvírusa eða trójuhesta eða annað sem getur innihaldið skaðlega eiginleika og haft áhrif á eðlilega virkni vefsvæðisins eða þjónustu Aurbjargar.

Brot á skilmálum þessum leiðir til tafarlausrar lokunar á aðgangi þínum.

Tilkynningar og skilaboð

Aurbjörg kann að senda þér tilkynningar eða skilaboð í tengslum við þá þjónustu sem er í boði hverju sinni í áskrift Aurbjargar. Með því að samþykkja skilmála þessa fyrir áskrift Aurbjargar samþykkir þú að Aurbjörg megi senda þér tilkynningar eða skilaboð á netfang þitt eða símanúmer, þ. á m. tilboð um fríðindi, vörur eða þjónustu Aurbjargar eða samstarfsaðila/þriðja aðila.

Tilkynningarnar eru sjálfvaldar eftir að þú hefur samþykkt skilmála þessa en hægt er að fara í stillingar og afskrá sig úr þjónustunni. Aurbjörg kann að fjarlægja, breyta eða bæta við tilkynningum án sérstaks samþykkis.

Aurbjörg reynir eftir fremsta megni að tryggja að tilkynningar berist þér fljótt og örugglega en ábyrgist ekki að þær berist á réttum tíma, innihaldi ávallt nýjustu eða réttar upplýsingar eða berist ekki vegna villna í efni tilkynninga.

Öryggi og persónuvernd

Aurbjörg hefur það að markmiði að tryggja ábyrga og örugga vinnslu allra persónuupplýsinga sem unnið er með á þjónustuvef Aurbjargar. Um vinnslu persónuupplýsinga gilda ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2016/679 (GDPR).

Framangreind löggjöf og persónuverndarstefna Aurbjargar er sett til að tryggja réttindi þín þegar kemur að vernd persónuupplýsinga þinna. Vinsamlega kynntu þér persónuverndarstefnu Aurbjargar vel og hvað felst í vinnslu persónuupplýsinga um þig með því að skrá þig í áskriftarþjónustu Aurbjargar.

Persónuverndarstefna Aurbjargar er órjúfanlegur hluti skilmála þessa.

Rafræn gagnaöflun og miðlun

Þjónusta Aurbjargar felur í sér að notendur geta óskað eftir að fá upplýsingar eða tilboð frá fjármálastofnunum eða öðrum þjónustuaðilum sem birtast á vefsvæði Aurbjargar. Í slíku ferli samþykkir notandi að Aurbjörg sendi þær upplýsingar sem hafa verið skráðar um þig eða Aurbjörg fær frá þriðja aðila (s.s. Þjóðskrá eða Samgöngustofu) til samstarfsaðila og nauðsynlegar eru til að verða við ósk um upplýsingar eða tilboð. Jafnframt samþykkir notandi að móttakandi upplýsinganna hafi heimild til þess að vinna með þær og eftir atvikum hafa samband við notanda til að bregðast við beiðni notandans.

Aurbjörg kann einnig að kalla eftir gögnum um notanda frá þriðja aðila í þeim tilgangi að veita notanda betri yfirsýn yfir sín mál hjá Aurbjörgu. Getur sú þjónusta verið til að tengjast og/eða veita aðgang að reikningsupplýsingum notanda eða öðrum upplýsingum. Eru gögnin þá flutt og þeim miðlað á milli vefþjónustu Aurbjargar og þriðja aðila en Aurbjörg kallar eftir uppflettingu í gegnum vefþjónustulag eða virkjar auðkenningu í vefviðmóti þriðja aðila á grundvelli samþykkis notanda.

Vefkökur

Við heimsókn á þjónustuvef og/eða innskráningu á áskriftarvef Aurbjargar verða til fótspor, eða vefkökur eins og það er kallað, í tölvu þinni um upplifunarferli þitt. Vefkökur eru litlar textaskrár sem eru vistaðar í tölvu eða snjalltæki þínu þegar þú heimsækir vefsíðuna í fyrsta sinn og gera vefsíðunni kleift að safna upplýsingum um aðgerðir þínar á vefsíðunni. Með því að samþykkja notkun á vefkökum samþykkir þú að Aurbjörg megi m.a. safna upplýsingum sem nota má til greiningar á notkun og aðsókn þinni að þjónustu Aurbjargar.

Nánar er fjalllað um vefkökur í persónuverndarstefnu Aurbjargar.

Hlutleysi og takmörkun ábyrgðar

Aurbjörg býður upp á faglega og óháða þjónustu sem byggist á upplýsingum sem Aurbjörg aflar frá þriðja aðila án þess að hafa hagsmuni af innihaldi þeirra. Aurbjörg leitast við að hafa allar upplýsingar og tilvísanir réttar og í samræmi við nýjustu útgáfur og uppfærslur. Aurbjörg getur þó hvorki ábyrgst að upplýsingarnar séu ávallt réttar né að áætlun út frá tölfræðilegum gögnum standist skoðun fram í tímann.

Aurbjörg er hlutlaus aðili og tekur ekki á nokkurn hátt afstöðu til upplýsinga eða tilboða sem Aurbjörg aflar fyrir hönd notenda frá þriðja aðila. Þá tekur Aurbjörg ekki afstöðu til þess hvort upplýsingar sem birtar eru frá þriðja aðila séu réttar, löglegar eða siðlegar né ábyrgist vörur eða þjónustur frá þriðja aðila þó þær séu birtar á vef Aurbjargar. Þjónusta Aurbjargar felst eingöngu í upplýsinga- og greiningarþjónustu til að aðstoða þig með fjármál heimilisins en felur ekki í sér lögfræðilega, skattalega eða aðra formlega fjármálaráðgjöf.

Aurbjörg ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlotist getur vegna galla eða bilunar í vél- eða hugbúnaði sem tengjast vefsvæði Aurbjargar, vafra eða stýrikerfi notanda, tengingu við veraldarvefinn eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda stöðvun eða rofi á þjónustu Aurbjargar, s.s. villur í gögnum eða truflanir í rekstri tölvukerfa.

Aurbjörg ber ekki ábyrgð á tjóni sem verður rakið til óviðráðanlegra orsaka (e. force majure) s.s. stríði, hryðjuverkum, náttúruhamförum, farsóttum, verkfalli eða viðskiptabanni né annarra atvika sem stafa af stjórnamálalegum, fjármála- eða efnahagslegslegum atburðum sem kunna að koma í veg fyrir eða valda rofi á þjónustu Aurbjargar.

Aurbjörg áskilur sér rétt á að rjúfa aðgang að vefsvæði Aurbjargar og/eða upplýsingum um stundarsakir fyrirvaralaust ef þörf krefur vegna viðhalds og endurbóta á þjónustu Aurbjargar, vegna uppfærslu á öryggisráðstöfunum o.þ.h.

Hugverkaréttindi

Vefsvæði Aurbjargar og allt innihald þess þ.á.m. útlitshönnun, vörumerki, hugbúnaður, ljósmyndir, ritstýrt efni og annað ótiltekið efni eru hugverk eiganda Aurbjargar og varið samkvæmt höfundar- og vörumerkjalögum á Íslandi og annars staðar. Allt innihald vefsvæðis Aurbjargar er eign Two birds ehf.

Öll dreifing, endurútgáfa eða rafræn afritun af innihaldi vefsvæðisins, hvort heldur sem er að hluta eða heild, er óheimil og ber þér sem notanda einungis að nýta þjónustu Aurbjargar til persónulegra nota inni á vefsvæði Aurbjargar og í samræmi við ákvæði skilmála þessa.

Uppsögn, lokun aðgangs og gildistími

Skilmálar þessir gilda á meðan þú ert í áskrift að þjónustu Aurbjargar. Þú getur hvenær sem er sagt upp áskriftinni og lokast þá aðgangur þinn að vefsvæði Aurbjargar þegar áskriftartímabili lýkur. Til þess að segja upp áskrift að þjónustu Aurbjargar ferð þú í stillingar og velur að segja upp áskriftinni.

Aurbjörg getur einnig hvenær sem er og án fyrirvara einhliða lokað aðgangi, ef notandi verður t.a.m. uppvís að misnotkun eða brýtur á einhvern hátt í bága við ákvæði laga eða skilmála þessa. Í slíku tilviki verður send tilkynning á notanda um fyrirhugaða lokun.

Skilmálabreytingar

Aurbjörg áskilur sér til að breyta skilmálum þessum einhliða hvenær sem er. Komi til breytinga verða allar breytingar aðgengilegar á vefsvæði Aurbjargar. Sé breytingin ekki til hagsbóta fyrir þig verður þér jafnframt tilkynnt um breytinguna þar sem vakin er athygli á því hvað felst í breytingunum og rétti til að segja áskriftinni upp. Geri þú ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar fyrir gildistöku telst vera komið samþykki fyrir þeim.

Lögsaga og varnarþing

Skilmálar þessir gilda um áskriftarþjónustu Aurbjargar. Þeir lúta íslenskum lögum. Ef ákvæði laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu nr. 30/2002, lög um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti nr. 55/2019, lög um neytendasamninga nr. 16/2016 eða ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018, svo dæmi séu nefnd, eiga við um þjónustu Aurbjargar og ganga lengra í að tryggja réttindi þín en skilmálar þessir gilda þau framar ósamrýmanlegum ákvæðum skilmála þessara.

Rísi mál út af skilmálum þessum skal það rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Með því að samþykkja skilmála þessa staðfestir þú að hafa kynnt þér þær reglur sem gilda um notkun áskriftarþjónustu Aurbjargar og staðfestir að þú munir fylgja þeim í hvívetna.

Skilmálar þessir eru gefnir út þann 27. apríl 2023 og taka gildi gagnvart notanda frá þeim degi er hann samþykkir þá.