Aurbjörg.is
Aurbjörg.is
15. mars 2018

85% veðhlutfall við fyrstu kaup

Nú býður Lífsverk lífeyrissjóður upp á lán með veðhlutfall allt að 85% af söluvirði samkvæmt kaupsamningi ef um fyrstu íbúðarkaup er að ræða. Með þessu bætist Lífsverk í hóp með Arion banka og Íslandsbanka sem veita hærra lán fyrir fyrstu íbúðarkaup til að reyna að auðvelda fólki að kaupa sína fyrstu fasteign. Áður bauð Lífsverk upp á 75% veðhlutfall.

Flestir lífeyrissjóður bjóða upp á 70-75% veðhlutfall á meðan bankarnir hafa verið að bjóða upp á hærra veðhlutfall, eða um 80-85%. Vegna þessa hafa margir tekið lán hjá bönkunum því þeir eiga ekki nógu mikið eigið fé til að taka lán hjá lífeyrissjóði, en lífeyrissjóðirnir bjóða almennt upp á lægri vexti á lánum. Því er athyglisvert að Lífsverk bjóði nú upp á 85% veðhlutfall fyrir fyrstu íbúðarkaup og er nú kominn í aukna samkeppni við bankanna.

Hér að neðan má sjá þá lánveitendur sem bjóða upp á hæstu veðhlutföll (80% eða hærra) við fyrstu íbúðarkaup. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að lánveitendur nota mismunandi viðmið í tengslum við veðhlutfall. Sumir miða veðhlutfallið við kaupverð, aðrir miða við fasteignamat og þar fram eftir götunum. Í húsnæðislána samanburðinum á Aurbjörgu er hægt að skoða smáaletrið með því að setja músarbendilinn yfir veðhlutfalls-reit. Einnig skal taka fram að Íslandsbanki lánar auka 2 m.kr. til viðbótar við 80% veðhlutfall.

Veðhlutfall yfirlit
Lánveitendur með hæstu veðhlutföll fyrir fyrstu íbúðarkaup

Nýjir lánamöguleikar hjá Lífsverk

Þegar Lífsverk tilkynnti breytingar á veðhlutfalli tilkynntu þeir einnig að nú bjóða þeir upp á verðtryggð lán með föstum vöxtum. Þessi lán bera 3,5% vexti sem eru hagstæðustu verðtryggðu föstu vextirnir sem hægt er að fá í dag, en LSR býður einnig upp á sömu vexti.

Benda skal á að til að taka lán hjá Lífsverk þarf að vera virkur greiðandi þegar lán er tekið og á meðan lánstíma stendur þ.e. að greiða að minnsta kosti 360þ. í iðgjald á ári (30þ. á mánuði). Í lánareglum sjóðsins stendur að auki:

Hætti lántaki, sem er sjóðfélagi, að greiða iðgjald til sjóðsins eða greiði minna iðgjald til sjóðsins en kr. 360.000,-á ári, án þess að þiggja lífeyri frá sjóðnum, er sjóðnum heimilt að gjaldfella lánið með sex mánaða fyrirvara eða að hækka vextina með 1,2% fastvaxtaálagi.

"Líkar þér vefsíðan mín? Gerðu vinum þínum greiða og láttu þá vita svo þeir geta notað vefsíðuna líka!" 🎉