Tveir nýir forritarar hjá Aurbjörgu

Aurbjörg hefur ráðið tvo nýja framendaforritara í vöruþróunarteymi fyrirtækisins til að styðja við frekari vöxt.  

Davíð Hafþór Kristinsson er með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði síðast við hugbúnaðarþróun hjá sprotafyrirtækinu Rebutia og áður hjá Sýn. Davíð er mikill áhugamaður um enska boltann og sérlega góður Fifa-spilari, einnig er hann lunkinn skákmaður og kann vel að meta góða handverksbjóra á tyllidögum. 

Kári Geir Gunnarsson er með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands ásamt diplómagráðu í Stafrænni hönnun frá Tækniskólanum. Hann starfaði áður sem forritari hjá Spektra. Kári er mikill þátta- og kvikmyndaunnandi og átti m.a. stjörnuleik í Clint Eastwood stórmyndinni, Flags of Our Fathers, þar sem hann lék lík í fjöru nr. 4. 

„Við erum spennt að fá Davíð og Kára í teymið okkar. Fyrirtækið er í miklum sóknarhug og munu kraftar þeirra nýtast vel í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er“, segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.

Aurbjörg

Aurbjörg
03.01.23