Þrjú ný til starfa hjá Aurbjörgu

Aurbjörg hefur ráðið þrjá nýja starfmenn í vöruþróunarteymi sitt til að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins.

Karlotta Guðlaugsdóttir var ráðin sem viðmóts- og upplifunarhönnuður. Karlotta er með diplómagráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundaði jafnframt nám í almennri hönnun við Tækniskólann. Áður en Karlotta gekk til liðs við Aurbjörgu starfaði hún hjá Júní sem stafrænn hönnuður.

Auk vefsíðugerðar ná listrænir hæfileikar Karlottu einnig til kökuskreytinga en hún heldur úti instagram-reikningnum „bíbí og baka“. Þá er hún er margfaldur Íslandsmeistari í samkvæmisdönsum og elskar karókí. Karlotta er fædd og uppalin á Hvanneyri í Borgarfirði en er nú búsett í Laugardalnum ásamt eiginmanni sínum, Torfa Kristbergssyni og dætrum þeirra tveimur.

Auk Karlottu voru tveir bakendaforritarar ráðnir til starfa, þeir Trausti Kouichi Ásgeirsson og Þröstur Ingason. 

Trausti Kouichi Ásgeirsson er með B.S. gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og starfaði áður sem forritari hjá Sabre Airline Solutions. Hann er úr Breiðholti en á ættir að rekja til Japans. Hans helstu áhugamál eru tónlist, þar sem hann aðhyllist lágtíðni og spilar á bassagítar. 

Þröstur Ingason er með B.S gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði síðast við hugbúnaðarþróun hjá Seðlabanka Íslands og Reiknistofu bankanna. Þröstur er mikill kaffiunnandi, lunkinn kokkur og getur spilað borðtennis með báðum höndum.

„Karlotta, Trausti og Þröstur eru frábær viðbót við ört vaxandi teymi Aurbjargar. Fyrirtækið er í miklum sóknarhug og mun sérþekking þeirra hjálpa okkur að þróa enn hraðar nýjar og framsæknar lausnir,“ segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.

Aurbjörg

Aurbjörg
09.12.22