Ásgerður og Thomas til Aurbjargar

Aurbjörg hefur ráðið inn tvo nýja starfsmenn. Ásgerður Þórunn Hannesdóttir mun gegna stöðu lögfræðings og regluvarðar og Thomas Boitard verður vöruþróunarstjóri Aurbjargar.

Ásgerður Þórunn Hannesdóttir er með M.A. gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa lokið lögmannsréttindum. Áður starfaði hún hjá Reykjavíkurborg á Þjónustu- og nýsköpunarsviði og þar áður hjá Arion banka á Viðskiptabankasviði í deild vöruþróunar, reksturs- og stafrænni framtíð. Ásgerður hefur víðtæka reynslu af úrlausnum lögfræðimálefna í þróun stafrænna lausna, persónuvernd og samningagerð. Ásgerður er úr Kópavoginum og býr þar ásamt sambýlismanni sínum, Stefáni Jónssyni og tveimur börnum. Í frítíma sínum leggur Ásgerður áherslu á að stunda áhugamál sín og stundar m.a. strandblak allan ársins hring á Íslandi og í ferðum erlendis.

Thomas Boitard er með M.S. gráðu í fjármála- og tölvunarfræði úr CY Tech í Frakklandi, ásamt einu misseri í viðskiptafræði úr Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði síðast sem upplýsingastjóri hjá Flyware á Íslandi og áður sem vörueigandi markaðslausna hjá Íslandsbanka. Hann hefur einnig margra ára reynslu sem tölvunarfræðingur hjá frönskum bönkum og eignastýringarfyrirtækjum. Thomas er fæddur og uppalin í Bearn héraði í suðvesturhluta Frakklands sem er einnig fæðingarstaður Bearnaise sósunnar góðkunnugu. Thomas flutti til Íslands árið 2016 ásamt eiginkonuni sinni Valdísi Gunnarsdóttur Þormar og syninum þeirra tveimur til þess að njóta veðursældar. Sem Frakki hefur Thomas að sjálfsögðu mikinn áhuga á góðum mat og víni, einkum á smökkuninni sjálfri.

„Það er mikill fengur að fá Ásgerði og Thomas til liðs við ört stækkandi teymi Aurbjargar, en þau búa yfir verðmætri reynslu sem mun nýtast vel í að hjálpa okkur í þeirri uppbyggingu sem framundan er“ segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Aurbjargar.

Aurbjörg

Aurbjörg
19.01.23