Get ég fengið aðstoð vegna tekjumissis?

Þúsundir Íslendinga standa frammi fyrir þeim veruleika þessi mánaðamót að útborguð laun eru lægri en þeir eiga að venjast og aðrir horfa fram á enn meiri kjaraskerðingu þegar fram líða stundir. Margir eru komnir í skert starfshlutfall og aðrir hafa misst vinnuna vegna COVID 19 veirufaraldursins og viðbragða við honum.

Sem betur fer stendur fólki til boða alls kyns úrræði sem eiga að létta því róðurinn meðan þetta óvenjulega ástand ríkir. Hér er ætlunin að fara yfir þau úrræði sem lánveitendur og leigufélög hafa kynnt á síðustu dögum og vikum. Markmiðið er að auðvelda fólki að finna þessar upplýsingar og nýta sér úrræðin sem til boða eru.

Athugið samt að upplýsingar sem hér birtast eru fengnar af vefsíðum viðkomandi fyrirtækja og sjóða og eru þær birtar með fyrirvara um breytingar. Mikilvægt er að hafa samband beint við fyrirtækið eða sjóðinn sem um ræðir.

Bankar

Arion banki býður einstaklingum sem sjá fram á erfiðleika við að standa skil á afborgunum íbúðalána vegna COVID 19 að gera hlé á afborgunum lánanna í allt að þrjá mánuði. Afborganir lánanna eru þá frystar í þrjá mánuði, þ.e. ekki þarf að greiða af láninu næstu þrjá mánuði eftir undirritun. Afborganir og vextir íbúðalána leggjast á meðan á höfuðstól lánsins til hækkunar á því. Þessi hækkun á höfuðstól leiðir til þess að afborganir lánsins eftir að úrræðinu lýkur hækka.

Íslandsbanki býður upp á tímabundna frestun á greiðslum af lánum og eins skilmálabreytingu á lánum, þar sem lánstími er lengdur til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði.

Þeir sem eru með íbúðalán og fasteignalán hjá Landsbankanum geta sótt um frestun greiðslna eða tímabundna lækkun ef á þarf að halda í allt að sex mánuði. Úrræðið er fyrst og fremst ætlað fyrir þá sem sjá fram á víðtæka tekjuskerðingu, meðal annars vegna atvinnumissis, skerðingar á starfshlutfalli eða veikinda.

Lífeyrissjóðir

Allir stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa kynnt einhvers konar úrræði til handa lántökum sem sjá fram á greiðsluerfiðleika vegna COVID 19 faraldursins. Úrræðin eru mismunandi eftir sjóðum. Allir bjóða þeir greiðslufrest, en misjafnt er hvort tiltekið er á vefsíðu sjóðsins hversu langur fresturinn má verða. Hjá sumum sjóðum er miðað við þrjá mánuði og hjá öðrum við sex mánuði. Þá er í einhverjum tilvikum hægt að lengja í láninu og þar með lækka mánaðarlega greiðslubyrði og eins breyta úr jöfnum afborgunum í jafnar greiðslur sem hefur sömu áhrif. Sjóðirnir eru of margir og úrræðin sömuleiðis til að hægt sé að útlista þau hér, en fólk er hvatt til að hafa samband við sinn lífeyrissjóð og kynna sér hvað í boði er.

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Hjá LÍN hafa heimildir við mat á umsóknum um undanþágu frá afborgun verið rýmkaðar tímabundið. Er hér um að ræða undanþágu vegna verulegra fjárhagsörðugleika greiðenda vegna tekjumissis. Þá hefur verið ákveðið að seinka innheimtuaðgerðum vegna tímabundinna vanskila á greiðslu námslána þannig að greiðendur fá nú tækifæri til að greiða gjalddagann næsta mánuð á eftir án dráttarvaxta og á því tímabili er greiðendum heimilt að óska eftir undanþágu frá afborgun ef ástæða er til.

Leigufélög

Leigufélög hafa einnig kynnt úrræði fyrir leigutaka. Heimavellir bjóða leigutökum, sem uppfylla ákveðin skilyrði, greiðslufrest á hluta leigugreiðslna í allt að 6 mánuði. Alma leigufélag og Búseti bjóða sambærilegan greiðslufrest í allt að þrjá mánuði og leigufélagið Bríet býður upp á greiðsludreifingu ef við á. Á vefsíðu Bjargs íbúðafélags segir að það svigrúm sem félagið hafi sé nú þegar nýtt til að halda leigukostnaði í lágmarki, en að félagið muni vinna náið með leigjendum sínum ef upp koma tímabundnir erfiðleikar.

Nánari upplýsingar á vefsíðum leigufélaganna:

Bjarg íbúðafélagHeimavellirAlmaBríetBúseti

Aurbjörg

Aurbjörg
20.04.20